Þeir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð Matthíassynir í VÆB eru bræður úr Kópavogi sem hafa verið í tónlist allt sitt líf og slógu rækilega í gegn í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2024 með lagið sitt Bíómynd. Þeir stíga á stokk á kvöldskemmtuninni á Vigtartorgi í kvöld beint á eftir eyjamærunum Unu og Söru.
Síðar um kvöldið mun eyjahljómsveitin Mucky Muck trylla lýðinn ásamt tónlistarmönnunum Birni og Prettyboitjokko, og fjöllistakonunni Sölku Sól sem verður með hljómsveitina Gosar með sér.
„Salka Sól hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá okkur enda er hún fyrrum félagi í Skólahljómsveit Kópavogs eins og við. Við stöndum með okkar fólki“ segja bræðurnir aðspurðir hverju þeir eru spenntir fyrir á dagskrá Gosloka.
Sjálfir hafa þeir komið þó nokkrum sinnum til Eyja og segja alltaf jafn gaman að kíkja í heimsókn. „Við vorum síðast í maí með Rokkkór Íslands í Höllinni og höfum svo farið líka nokkrum sinnum með fjölskyldunni þar sem afi okkar er eyjamaður.“
Ásamt því að vera að skemmta á Vigtartorgi þá sjá bræðurnir um sundlaugarpartý í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja klukkan 11:30 til 12:30 í dag. Þeir lofa bullandi stemningu og segjast sjálfir elska sund.
„Gerið ykkur klár fyrir alvöru veislu. Þetta kvöld verður góð bíómynd“ segja VÆB að endingu í samtali við Eyjafréttir/Eyjar.net.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst