Endurminningar Jóns Stefánssonar á Stöðinni bregða upp ljósri mynd af harðri lífsbaráttu í Vestmannaeyjum á fyrri hluta síðustu aldar. Bæði mannlífi og aðstæðum fólks til sjávar og lands. Jón frá Fagurhól í Vestmannaeyjum kom víða við á ævinnu. Hann var strætisvagnastjóri, iðnverkamaður, næturvörður, ritstjóri og loftskeytamaður og þekktur sem Jón á Stöðinni. Hann fæddist í Eyjum þann 28. ágúst 1909. Er þetta þriðji kaflinn úr minningarbrotum Jóns sem Hermann Kristján, sonur hans hefur tekið saman. Hér segir hann m.a. frá kynnum sínum af Einari ríka og aðstæðum við Vestmannaeyjahöfn þar sem þurfti mörg handtök við það eitt koma fiski úr bát upp á bílpall.
Hafnaraðstaða hér í Vestmannaeyjum var ekki góð á mínum uppvaxtarárum og bátar flutu ekki að bryggju á fjöru. Bryggjur voru þá bæði fáar og smáar eða stuttar, hvort sem maður á nú eiginlega að segja. Sé talið austanfrá voru það Fram-bryggjan, hún kom ekki að gagni nema í blíðviðri og háflóði, Edinborgarbryggjan, Bæjarbryggjan, Tangabryggjan og Gísla Magnússonarbryggjan. Að vísu var hér ein bryggja enn, Drífandabryggjan, en hún kom að harla litlu gagni. Satt að segja man ég ekki eftir því að hún væri nokkurn tíma notuð nema þá kannski til þess að binda við hana skjögtbáta, sem þó var víst fátítt.
Var þá undirgangur í gegnum mitt Drífandapakkhúsið (Gefjunarhúsið), þar var bryggjan stutt og hallandi trébryggja, næstum á þurru á fjöru. Helstu not af þeirri bryggju voru víst er við Þórður Benediktsson (síðar forseti SÍBS, sem þá var verkstjóri hjá kaupfélaginu Drífanda), fórum þangað til að drekkja rottum er við höfðum veitt í pakkhúsinu en af þeim var nóg í pakkhúsi kaupfélagsins. Það var helst við enda bryggjanna að bátar gætu landað þegar lágsjávað var, það var því næsta eðlilegt að bátarnir reyndu að komast þar að er þeir komu að landi Það er því hreint ekkert undarlegt þó hægt sé að nefna dæmi um árekstra og átök um bryggjupláss við bryggjuendana.
Þess eru mörg dæmi að bátur var að landa við enda bryggjunnar og á meðan hann var að því komu tveir bátar, annar lagðist framan við bátinn sem var að landa, hinn aftan við og báðir settu stafn síns báts milli þess báts sem var að landa og bryggju. Þegar hann hafði lokið löndun og fór frá settu hinir báðir á fulla ferð og hafði sá bátur er lenti með stefnið nær bryggjunni oftast betur. Þó var það ekki einhlýtt, stundum stóð einn hásetinn á öðrum bátnum (að skipan skipsjórans) með exi mikla í hendi og hjó í sundur bryggjuband hins bátsins og réði það stundum úrslitum með löndun. Var því oft svo í slíkum kringumstæðum að bátar settu fast með vír eða jafnvel keðju svo öxin kæmi ekki að notum. Af því leiddi svo aftur handalögmál milli formannanna og muna eflaust ýmsir eftir all hressilegum slagsmálum í því sambandi.
Á þessum árum var afli mikill, oft voru bryggjurnar alveg fullar af fiski og t.d. á Edinborgarbryggjunni sem Gísli J. Johnsen átti, en hann rak mikla útgerð, var oft bryggjan full af fiski er bátarnar komu að landi. Var þá aflinn metinn í stykkjatali en ekki eftir vigt. Er sagt að sumir bátar hafi komið með afla alveg lygilega mikinn er þeir lönduðu ofan á afla er á bryggjunni lá frá fyrri degi. Það leiðir af sjálfu sér að þegar að bryggjurnar voru svo fullar af fiski þá fór margur fiskurinn í sjóinn. Það var því eftirsótt af okkur strákunum að fara á árabát meðfram bryggjunum og krækja upp með stjaka fiska er fallið höfðu í sjóinn. Höfðum við oft upp úr þessu marga fiska. Ekki vil ég nú sverja fyrir að stundum hafi krókstjakinn lent upp á bryggjunni og í hausinn á þorski er stóð út af bryggjubrúninni en því fylgdi stundum skriða af fiski niður í sjóinn. Jók þetta að sjálfsögðu afla okkar mjög mikið og var því freisting mikil sem æði oft var ómögulegt að standast.
Þegar Hörgeyrargarðurinn var byggður, norður hafnargarðurinn, hefur líklega verið byggð ein lengsta brú á landinu á þeim tíma, að vísu bara göngubrú. Þá var byggð göngubrú alla leið af Eiðinu og undir Löngu, borað var í bergið á Neðri Kleifum og þar skrúfuð föst járn og á þau lagðir tveir plankar, hlið við hlið. Eftir þessari brú gengu verkamenn þeir sem við hafnargarðinn unnu og konur og börn er fóru með mat og kaffi til þeirra.
Þótti okkur krökkunum hið mesta ævintýri að vera á brú þessari og vorum þar því oft. Sjálfsagt má enn í dag sjá einhverjar menjar þessarar brúar. Allt grjót sem var notað var í hafnargarðinn var sprengt úr Hettu, stóðu menn þar á trépöllum og boruðu í bergið og þegar sprengt var fóru allir í skjól í helli sem löngum var fjárrétt meðan fé var í Heimakletti. Að sjálfsögðu var verkamönnum þeim er unnu undir Löngu gert aðvart er sprengja átti og fóru þeir þá í skjól. Var stórfenglegt að sjá þessar sprengingar, stórir klettar hentust úr Hettu og fram af brúninni á Efri Kleifum og komu niður í sandinn undir Löngu. Síðan var þeim ekið á járnbrautarvögnum út á garðinn.
Er barnaskólagöngu lauk við fermingu mátti segja að skólagöngu minni væri lokið. Unglingaskóli var þá starfræktur hér undir stjórn Páls Bjarnasonar og konu hans, Dýrfinnu. Þessi mætu hjón áttu sinn þátt, og hann ekki ómerkan, í ýmsum umbóta og menningarmálum hér í Eyjum, voru þau virt og vel metin af öllum almenningi fyrir áhuga sinn og baráttu fyrir öllu sem til menningarauka og framfara mátti vera hér.
Í þennan unglingaskóla fór ég en síðla hausts kallaði Páll Bjarnason á mig og sagði mér að Einar Sigurðsson, sem var nýútskrifaður úr Verslunarskólanum og ætlaði að fara að stofnsetja hér verslun hefði beðið sig að benda sér á góðan ungling úr skólanum til að vinna við verslun sína, bað Páll mig ef ég hefði áhuga að tala við Einar.
Að sjálfsögðu var ég mjög hreykinn af því að Páll, þessi mæti og vandláti maður, skyldi velja mig úr nemendahóp skólans. Sagði ég foreldrum mínum frá þessari „stórfrétt“ er heim kom og urðu málalok þau að ekki mætti sleppa slíku tækifæri til að fá fasta og örugga atvinnu og skyldi ég því hætta í skólanum og ráðast til Einars.
Morguninn eftir arkaði ég svo upp á Heiði til að tala við Einar og samdist svo að ég yrði starfsmaður hans er hann opnaði verslunina Boston við Heimatorg. Varð ég því fyrsti starfskraftur Einars sem síðar varð einn umsvifamesti athafnamaður landsins. Ekki byrjaði Einar, sem síðar var kallaður ríki, stórt. Í þessari litlu búð var vörunum raðað fremst í hillurnar og dugði varla til að svo eitthvað væri í öllum hillunum.
Einar getur þess í ævisögu sinni að ég hafi verið nokkuð hreykinn af því að stjórna versluninni er hann skrapp til Reykjavíkur í verslunarerindum. Þetta er að vissu leyti rétt, ungum strák hlýtur að þykja það upphefð að vera trúað fyrir verslun í fjarveru eigandans, en þetta er bara ekki öll sagan. Einar var nýkominn úr Verslunarskólanum, kannski hefur það verið af þreytu eftir þá veru, en hann var mjög rúmlatur á morgnana.
Ekki hafði ég lykil að búðinni, mætti klukkan 9 á morgnana og enginn Einar kominn. Eftir töluverða bið var það því svo oft að ég varð að arka upp að Heiði, var Einar þá oft hálfsofandi upp í rúmi og fékk ég búðarlykilinn hjá honum og fór og opnaði búðina, Einar kom svo einhvern tíma löngu seinna. Ánægja mín var því ekki síst sprottin af því að hafa lykil að búðinni og þurfa ekki að arka upp á Heiði dag eftir dag til að fá lykil að búðinni. En það vil ég taka fram að þessi rúmleti Einars stóð ekki nema fyrstu árin, er umsvifin jukust fór hann að fara fyrr á fætur.
Ég tók bílpróf haustið 1929 og næstu vertíð á eftir var ég bílstjóri hjá Drífanda og er það erfiðasti vetur sem ég hef átt á ævi minni. Drífandi tók þá mikið af fiski til verkunar, mig minnir að ég hafi þurft að taka fisk af einum 12 til 14 bátum, ekki allan aflann af þeim öllum, sumum allt, sumum helminginn og öðrum þriðja eða fjórða part. Þá var landað á skjögtbátum ef ekki var flóð. Þá var sem betur fer stingurinn kominn til sögunnar, því ég varð að henda öllum fiskinum upp á bílinn og telja þá um leið.
Var þetta að sjálfsögðu mikið erfiðisverk, ef um stóran þorsk var að ræða og úttroðinn af loðnu eins og var nú oft er Sandafiskiríið var í algleymingi eða þegar stór langa lenti hjá manni. Stundum losuðu skjögtararnir við lágbryggjuna og þar sem hún var oft full af fiski og engin leið að koma bílnum þar að sem maður átti að taka fisk varð að leggja bílnum á hábryggjuna og fara síðan niður á lágbryggjuna og henda aflanum upp á hábryggjuna og síðan fara þangað og henda aflanum upp á bílinn, aka síðan upp að aðgerðarhúsinu og henda með stingnum öllum fiskinum inn í húsið.
Þá voru ekki vélsturtur á bílum eins og nú heldur þurfti maður að taka undir bílpallinn að framan, eins og gert er á hestvögnum, en fyrst þurfti að taka lokið burt að aftan. Við það rann svo mikið af þeim fiski sem aftast var í bílnum burt að ógerningur var að lyfta pallinum.
Bátarnir fóru að koma að seinnipart dagsins og þurfti að fylgjast með því er þeir komu, auk þess henti það stundum að bátur sem kom að er lágsjávað var landaði ekki fyrr en um nóttina á flóðinu og varð maður þá að vera til staðar til þess að taka á móti aflanum. En þetta var nú ekki allt sem gera þurfti, Drífandi tók fiskibein af mörgum útgerðarmönnum. Var þeim ekið út í hraun og þurrkuð þar og síðan send til Noregs um sumarið.
Það var því venjan að þegar uppkeyrslunni var lokið á kvöldin var farið að keyra beinum og það fór nú þannig fram að bílnum var ekið á heppilegan stað við Strandveginn, þá var náð í handvagn og honum ekið út á pallana að þeim króm er bein átti að taka frá, mokað upp á vagninn með kvísl og honum síðan ýtt á undan sér að bílunum og beinunum mokað á bílinn.
Varð að fara margar ferðir áður en bíllinn var hlaðinn en þá var ekið út í hraun með beinin. Þá var lokið tekið úr og reynt að keyra upp í einhvern hólinn eða hæðina til þess að beinin rynnu sjálkrafa aftur af bílnum því ógerninga var að sturta ef mest af farminum voru hausar, var því oft reynt að hafa hryggi aftast því þeir runnu ekki aftur úr bílnum er lokið var tekið og því hægara að sturta.
Það fylgdi beinakeyrslunni að taka líka slorið, varð því af fara fram á palla og moka slorinu upp úr slorkörunum með kvísl í handvagninn, aka honum að bílnum og moka síðan upp í bílinn og er nóg var komið á bílinn var eki austur á Urðir og slorinu mokað í sjóinn.
Oft var verið að þessu til klukkan 1 eða 2 á nóttinni og stundum lengur, svo þurfti kannski að fara að keyra upp fiski klukkan 4 eða 5 af bát sem landaði á næturflóðinu. Var svefn því oft næsta lítill því margt kallaði að um morguninn, ljúka við að keyra beinum og slori, fara með lifrina í brasið og ef umsalta þurfti fisk þá varð að keyra honum í annað hús. Þegar lifur og slor var frá Drífanda aðgerðinni þurfti að leggja bílnum fyrir utan húsið, lifur og slor var sett í sérstök kör inni í húsinu, þurfti að moka með kvísl úr körunum í körfur og bera síðan að bílnum og hvolfa úr þeim í bílinn. Var þetta bæði seinlegt og erfitt, en við allt þetta þurfti bílstjórinn að vinna sjálfur.
Þennan vetur var afli mjög mikill enda var það svo að heilu vikurnar svaf ég ekki nema 2 eða 3 tíma á sólarhring og er langt var liðið að apríl mánuð varð ég veikur. Kolka læknir var sóttur og eftir að hafa rannsakað mig sagði hann að það sem að mér amaði væri ekkert annað en ofþreyta, sagði hann að ég mætti ekki vinna meira þessa vertíð. Eftir nokkra daga leið mér orðið miklu betur, tolldi ég þá ekki lengur í rúminu og fór aftur í vinnuna. Fékk ég þá ungling með mér til hjálpar á bílnum og þraukaði til loka, sem voru 11. maí.
Grein úr 10. tbl. Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst