Leikskóla og daggæslumál voru tekin fyrir á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja nú í vikunni. Fyrir bæjarráði lágu drög að minnisblaði frá framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs vegna beiðni fræðsluráðs um að koma upp annarri leikskóladeild við Kirkjugerði.
Í minnisblaðinu gera framkvæmdastjórarnir grein fyrir framkvæmda-, stofn- og rekstrarkostnaði við nýja sambærilega deild og opnuð var við Kirkjugerði fyrr á árinu. Festa þarf kaup á einingum fyrir deildina á þessu ári ef af verður og er áætlaður heildarkostnaður 85 m.kr. Gera má ráð fyrir auknum rekstrarkostnaði upp á rúmar 40 m.kr. vegna nýju deildarinnar.
Bæjarráð samþykkti samhljóða að koma upp annarri leikskóladeild við Kirkjugerði, sambærilegri þeirri sem komið var upp fyrr á árinu. Aukin rekstarkostnaður fylgir nýrri deild sem gera þarf ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir 2025. Bæjarráð leggur áherslu á að allt það húsnæði sem eru undir leikskólastarfsemi sé nýtt sem best með faglega og fjárhagslega hagsmuni að leiðarljósi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst