Á þrjátíu ára ferli mínum sem skólahjúkrunarfræðingur hef ég unnið mjög náið með kennurum. Það kom fljótt í ljós að starf kennara er fjölbreytt, skemmtilegt og erfitt. Kennarar eiga allan heiður skilin og ég dáist að þeim. Á hverjum degi koma upp ný verkefni sem oft þarf að leysa með hraði á mannlegan og ljúfan hátt og sýna þarf mikla þolinmæði. Í skólanum mínum eru 15-20 börn í bekk og það er ekki getuskipt þannig að kennarinn þarf sífellt að vera á verði að hver nemandi hafi verkefni við hæfi. Skólinn er án aðgreiningar þannig að öll börn eiga rétt á að vera í skólanum hvort sem um fatlanir, sjúkdóma eða hegðunarerfiðleika er að ræða. Börn eru með alls kyns greiningar og hvert barn þarf einstaklingsmiðaða námskrá og þjónustu. Í yngstu bekkjunum getur stundum þurft að renna, reima, snýta og skeina, hjálpa til við nestið (t.d. á Mandarínutímabilinu) og fleira og fleira.
Mikið samstarf er á milli kennara, stjórnenda og annars starfsfólks í skólanum og auðvitað foreldra. Þetta þýðir að auk kennslu er fundarseta, alls kyns teymisvinna og samskipti í síma og í tölvupósti. Tækni hefur fleygt hratt fram og kennarar þurfa að fylgjast vel með og læra á nýja tækni og kerfi á hverjum vetri.
Þróunarverkefni, námsgagnagerð og að fylgjast með nýjungum er stór þáttur í starfi kennarans. Aðalstarfið er svo auðvitað að sjá til þess að börnin læri og að halda uppi aga. Margt annað kemur til sem ég hef ekki vit á, bæði erfitt og skemmtilegt.
Skólahjúkrunarfræðingar eru upp á kennara komnir með að fá tíma til að koma með sitt kennsluefni í bekkina. Aldrei hef ég fengið neitun um að fá að koma með fræðslu í bekkina og oft hef ég þurft tæknilega aðstoð sem alltaf er auðfengin. Í 1.,4., 7., og 9. bekk eru skimanir sem óneitanlega valda truflun þegar nemendur eru að koma og fara til okkar. Í 7. og 9. bekk eru einnig bólusetningar og þá daga sem þær standa yfir er oft mikil truflun því alltaf eru einhverjir hræddir við sprautur og mikill óróleiki. Þessu hafa kennarar tekið af stóískri ró og jafnvel komið og hjálpað til.
Með þessum orðum vil ég þakka fyrir samstarfið í gegnum árin og hvetja kennara í þeirra kjarabaráttu. Kennarar eiga allt gott skilið og eru mikilvæg stétt í okkar landi.
Vera Björk Einarsdóttir skólahjúkrunarfræðingur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst