Lúðrasveit Vestmannaeyja mun halda sína árlegu hausttónleika í Hvítasunnukirkjunni, laugardaginn 9.nóvember nk. kl.16.00. Löng hefð er fyrir þessum tónleikum Lúðrasveitarinnar að hausti og eru þeir jafnan stærstu tónleikarnir hvert ár.
Þetta árið þá hefur Lúðrasveitin ákveðið að feta dægurlagasögu heimsins og taka bæði gömul og önnur minna gömul lög og er óhætt að fullyrða að þarna munu koma við sögu lög við allra hæfi og algjörlega við hæfi tilefnisins. Lög The Beach Boys, Led Zeppelin, Toto, Coldplay og fleiri munu hljóma þarna að ógleymdum Oddgeiri Kristjánssyni, stofnanda Lúðrasveitarinnar, en um 30 manns munu flytja þessi verk.
Að sögn meðlima hefur dagskráin sjaldan verið skemmtilegri og fjölbreyttari og aldurbil flytjenda sjaldan meira eða ríflega 50 ár á milli elsta og yngsta flytjanda. Eins og áður sagði eru tónleikarnir á laugardaginn kl.16 í Hvítasunnukirkjunni og aðgangseyrir er kr. 3000 en styrktarfélagar Lúðrasveitarinnar hafa fengið senda tvo boðsmiða á tónleikana.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst