Á þriðjudaginn kynntu Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra drög að frumvarpi um breytingu á lögum um veiðigjald.
Frumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt af ýmsum, m.a. stjórnarandstöðu þingsins. Einar Sigurðsson er stjórnarformaður Ísfélagsins. Hann segir í samtali við Eyjafréttir aðspurður um að ef frumvarpið fari óbreytt í gegnum þingið, hvað það þýði fyrir byggðarlag eins og Vestmannaeyjar að það eigi eftir að skoða það betur.
„Mér sýnist hækkunin bitna verr á Vestmannaeyjum vegna útfærslunnar. Ég myndi halda að það væri ekki undir einum milljarði og ef vel veiðist t.d. í góðri loðnuvertíð talsvert hærri tala.”
Hvað er það helst sem er gagnrýnivert að þínu mati í frumvarpinu?
Í fyrsta lagi er það útfærslan sem er furðuleg. Að taka tölur í öðrum löndum og færa á Ísland. Við erum með kerfi hér þar sem veiðar og vinnsla eru á sömu hendi . Það hefur verið okkar gæfa, og skilað sér í að mikið af fiski er unnið hér meðan mun stærri hluti er fluttur úr landi óunnin t.d. í Noregi. Þar er fiskvinnslan illa stödd og mun minna fjárfest þar í vinnslum. Ef vinnslan á að borga sig og fyrirtækin fjárfesta í þeim gefur það auga leið að þær fjárfestingar verða skila góðri afkomu.
Það eru engin möt gerð á því hvaða áhrif þetta hefur. Stærstur hluti hækkunarinnar er greiddur af fyrirtækjum út á landi og það mun hafa áhrif og veikja m.a. fiskvinnsluna. Draga úr fjárfestingum og hugsanlega fer meira óunnið úr landi, það minnkar bæði skattspor, og útsvar sveitafélaga.
Spurður um hvaða breytingar hann telji að frumvarpið muni hafa á rekstur útgerðarinnar í heild sinni segir Einar að til lengri tíma dragi það talsvert úr fjárfestingu og auki útflutning á óunnum fiski. Þetta mun hugsanlega flýta fyrir samþjöppun, sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem reka minni fiskvinnslur í minni sveitarfélögum.
Hvað telur þú að séu næstu skref sem stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja þurfi að taka í ljósi breytinga sem frumvarpið kann að innleiða?
Hugsa mjög hvernig uppbygging landvinnslu verði háttað í framtíðinni. Þar er stóra hættan að við missum það forskot sem við höfum haft í samkeppninni.
Spurður um hvernig útgerðin geti tryggt að hún verði áfram samkeppnishæf í framtíðinni í ljósi nýrra laga og breytinga í atvinnugreininni segir Einar það ljóst að gangi þetta eftir mun samkeppnisstaðan veikjast. „VIð erum að keppa við ríkisstyrktan sjávarútveg í Evrópu og greinin veikist. Það er enginn vafi á því.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst