Lögfræðingarnir Jóhann Pétursson og Ólafur Björnsson á Selfossi hafa unnið að því undanfarið ár að verjast ásælni ríkisins sem vill leggja undir sig úteyjar Eyjanna.
Kári Bjarnason hefur verið þeim til aðstoðar við að leita uppi heimildir sem geta hjálpað til við að taka af vafa um að Vestmannaeyjabær sé réttmætur eigandi alls lands í Vestmannaeyjum þar á meðal úteyjanna.
Blaðamaður settist niður með Kára til að forvitnast um stöðu mála nú þegar meira en ár er liðið frá því fjármálaráðherra gerði fyrst kröfu um að bærinn afhendi ríkinu aftur hluta af Eyjunum, enda þótt aðeins hafi verið dregið úr kröfunum eftir að lögfræðingarnir snerust fyrst til varnar.
,,Málið í dag snýst um hvort ríkið hafi átt úteyjarnar til að selja okkur á sínum tíma eða ekki,” segir Kári og bætir við ,,ef við getum sýnt fram að Danakonungur hafi átt úteyjarnar eins og það liggur ljóst fyrir að hann átti Heimaey þá er málið unnið.”
,,Þess vegna varð ég svo glaður þegar ég rakst á handrit frá 1747 með yfirlýsingu frá konungi sjálfum, og með innsigli hans, sem virðist taka af allan vafa um að Bjarnarey að minnsta kosti væri hluti af eign hans” og nú dregur Kári fram sönnunargögnin sem fylgja fréttinni.
,,Ég hef lagt það til við lögfræðingana að við semjum við ríkið um að Vestmannaeyjabær eigi Bjarnarey eins og búið er að semja um að bærinn eigi Heimaey en á móti leysi ríkið hinar úteyjarnar til sín.
Það er ekki það mikið verið að veiða í dag að það getur ekki verið vandamál að koma úteyjakörlunum fyrir á einum stað í stað þess að þurfa að manna margar úteyjar eins og núna er.
Með þessu móti höldum við úteyjalífinu gangandi og þeir sem hafa tilheyrt öðrum úteyjum munu fljótt venjast nýjum veiðistöðum enda allir sammála um að úteyjarnar séu meira eða minna allar eins. Þetta þýddi það líka að erfitt dómsmál myndi leysast á farsælan hátt,” segir Kári að lokum.
Eyjafréttir leituðu viðbragða hjá Jóhanni Péturssyni öðrum lögfræðinga málsins um hvort verið væri að ræða við ríkið á þessum nótum. „Ég get staðfest að málið er í góðum farvegi. Það eru líkur á því að þess sé ekki langt að bíða að það komi jákvæð tíðindi um þetta mál,” sagði Jóhann.
Uppfært 2. apríl: Ofangreind frétt var aprílgabb.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst