Í gær, á föstudaginn langa tók sr. Viðar Stefánsson fram sippubandið og sippaði til stuðnings Krabbavörn Vestmannaeyja. Hann hafði gefið það út að hann ætlaði að sippa 10.000 sipp í safnaðarheimilinu og treysti hann á áheit bæjarbúa til söfnunar fyrir Krabbavörn. Viðar sippaði 879 sipp umfram 10.000 til að vera alveg öruggur með þetta.
Eyjafréttir heyrðu í Viðari í morgun og var hann spurður hvernig honum liði eftir allt sippið? Ég get alla vegna sagt fyrir mitt leyti að mér líður furðulega vel. Finn alveg að kálfarnir eru stífir en annars nokkuð góður. Verð sennilega verri á morgun, páskadag.
„Mig langar bara að þakka þeim sem hvöttu mig áfram í sippinu og þeim sem litu við í safnaðarheimilið. Einnig Lind á Leturstofunni fyrir auglýsingavinnu og Krabbavörn fyrir að taka vel í framtakið. Fyrst og fremst langar mig að þakka öllum sem styrktu Krabbavörn. Stuðningurinn er ómetanlegur fyrir þetta mikilvæga félag sem Krabbavörn er. Það er ótrúlegt hvað við getum áorkað miklu ef við gefum örlítið af okkur,” segir Viðar.
Þóranna Sigurbergsdóttir er formaður Krabbavarnar. Hún vill – fyrir hönd Krabbavarnar – þakka fyrir framtak sr. Viðars. „Þegar ég heyrði að hann ætlað að sippa eftir messu á föstudagininn langa hugsaði ég um að þann dag hafa menn notað til lestrar, bæna og íhugunar. Einnig neita menn sér um mat þjá líkama sinn í sumum löndum. Á ensku er talað um Good friday, föstudaginn góða og er hann það svo sannarlega þegar við hugsum innihald dagsins.
Krabbavörn þakkar þann hlýhug sem margir sýna starfi félagsins. Bæn um blessun sr. Viðari til handa og hvetjum hvert annað til að íhuga innihald dagsins og til góðra verka. Við vitum ekki til þess að prestur hafi sippað eftir messu á föstudeginum langa og það var mikill heiður að fylgjast með honum og sjá að hann náði 10 þúsund sippum á tveimur tímum. Í gærkvöldi var komið 527.750 kr. fyrir sippið til Krabbavarnar,” segir Þóranna í samtali við Eyjafréttir.
Hér að neðan má sjá myndbrot frá því þegar Viðar er að ljúka við að sippa, en efra myndbandið er af Viðari að sippa.
Reikningsnúmer og kennitala Krabbavarnar:
0582-04-250247
651090-2029
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst