Hið árlega The Puffin Run hlaup verður haldið þann 3. maí nk. Hlaupið er haldið í áttunda sinn nú í ár og fer það stækkandi ár hvert. Magnús Bragason, einn af stofnendum og skipuleggjendum hlaupsins segir hugmyndina af hafi í raun kviknað út frá áhuga gesta á náttúrunni í Vestmannaeyjum. Magnús var í hótelrekstri á þeim tíma og dagsetningin hafi verið valin með það í huga að auka ferðamannastraum til Eyja á þeim tíma sem áður var ein af rólegustu helgum sumarsins. Nafnið á hlaupinu var hugsað til þess að vekja áhuga erlendra keppenda til að koma og taka þátt, en svo varð hlaupið svo vinsælt á meðal Íslendinga að ekki hefur verið farið í að auglýsa erlendis.
Í dag er þessi helgi orðin ein af stærstu helgum sumarsins og sýna farþegatölur Herjólfs aukningu um rúmlega 2000 manns frá því sem áður var. Maggi er ekki ókunnur hlaupum en hann ásamt fleira fólki hefur staðið fyrir Vestmannaeyjahlaupinu frá upphafi. ,,Við byrjuðum með Vestmannaeyjahlaupið 2011 og er það götuhlaup, en Puffin Run er utanvegahlaup“
Við byrjuðum að stika Puffin Run leiðina um 2016, þá nýttum við gönguslóða sem fyrir voru og tengdum þá saman. Þannig að öll vinnan sem við höfum verið að gera í kringum Puffin Run hefur einng nýst öðrum, ekki bara hlaupurunum. Magnús ásamt fleirum var búin að vera með hugmyndina um Puffin Run í maganum lengi og voru hann og Sigmar Þröstur byrjaðir að stika leiðina töluvert áður en ákveðið var að kýla á hlaupið.
,,Við kynntumst hjónum í Þórsmerkurhlaupi árið 2017, þeim Guðmundi og Höllu. Þau halda úti heimasíðu þar sem fjallað er um hin ýmsu hlaup. Ég sagði þeim frá hugmyndinni um Puffin Run og að við værum búin að stika leið og svo framvegis. Ári síðar vorum við Adda að taka þátt í hlaupi í Berlín. Eftir hlaupið er kallað á okkur af bar og þá hittum við þau hjón fyrir tilviljun og settumst hjá þeim. Þá segir Guðmundur við mig ,,Maggi ætlaðir þú ekki að vera kominn með hlaup í ár?”
Um 80 í fyrsta hlaupinu
Eftir þetta fer ég beint upp á hótel herbergi, bý til facebook síðu og auglýsi fyrsta Puffin Run hlaupið. Við höfðum einungis þrjár vikur til stefnu, umgjörðin var ekki mikil heldur sýndum við bara fólki hvernig leiðin var. Það tóku 40 manns ofan af landi þátt og 40 Vestmannaeyingar. Fólki fannst þetta mjög spennandi þannig það var ákveðið að gera þetta aftur ári seinna, þá komu 150 manns. Síðan hefur þátttakendum fjölgað á hverju ári, meira að segja á Covidárunum. Í fyrra tóku þátt 1200 þátt og í ár eru 1600 skráðir.
Á hverju vori förum við að lagfæra og stika leiðina og höfum bætt við stikum á hverju ári. Þannig að leiðin er alltaf betur og betur merkt og það eru allir farnir að elta stikurnar, meira að segja kindurnar. Áður voru kannski 4 slóðar að fara sömu leið en eftir að við stikuðum þá notar fólk bara eina leið og það er betra fyrir náttúruna.
Upphaflega átti Puffin Run að vera hálfmaraþon en eftir samtal við hlauparann Arnar Pétursson tókum við ákvörðun um að gera það ekki. Arnar kom með góðan punkt en hann sagði ,,Það er fullt af fólki um allan heim sem fer í hálfmaraþon og fer bara einu sinni í hvert. En þessi leið er öðruvísi og fólk mun vilja koma aftur.“
En hvað finnst Magga standa upp úr í ferlinu í tengslum við Puffin Run? ,,Það sem mér finnst standa upp úr er stemmningin sem ríkir hjá keppendum. Þú keppir við sjálfan þig, þú samgleðst með öðrum og það er gefandi að standa í þessu.“ Einnig er ég afar stoltur af því að því að hlaupið hefur náð til ferðafólks erlendis frá. Það er fólk sem kemur til Íslands eingöngu til að taka þátt í hlaupinu. Þegar það kemur aftur ári síðar með vini sína með í för finnst mér vísbending um að við séum að gera eitthvað rétt.
Aðalsmerki hlaupsins fyrir utan náttúruna er hversu margir eru tilbúnir að leggja hönd á plóg. Við erum með frábæra brautarverði sem koma ár eftir ár að hjálpa til. Það er fjöldi fólks sem leggur sitt að mörkum til að gera þetta mögulegt. Þegar það hefur verið afrakstur af hlaupunum þá höfum við oft gefið til góðgerðamála. Þá hafa lítil félög eins og fimleikafélagið, kvennakórinn, skátarnir, björgunarfélagið og fleiri tekið að sér verkefni í kringum hlaupið.
Að lokum vill Maggi nýta tækifærið og skora á Vestmannaeyinga til að mæta og hvetja keppendur. Hlaupið verður ræst norðan við bílastæði Fiskiðjunnar kl.12:15 laugardaginn 3. maí og eru fyrstu keppendur að koma í mark rúmum klukkutíma síðar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst