Aðfaranótt þriðjudags 19. ágúst, frá miðnætti til kl. 08:00 að morgni, verður rafmagn til íbúa og atvinnulífs framleitt með varaaflsvélum. Er það í tengslum við undirbúning fyrir tengingu Landsnets á tveimur nýjum sæstrengjum við dreifikerfi HS Veitna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Veitum.
Þar segir enn fremur að á meðan á þessu standi gæti þurft að skammta rafmagn ef álag verður mikið. Skömmtunin felur í sér að hluti bæjarins gæti orðið rafmagnslaus um stund.
„Við biðjum bæjarbúa að halda rafmagnsnotkun í lágmarki á þessum tíma, til dæmis með því að:
– Slökkva á óþarfa ljósum og raftækjum
– Forðast þvottavéla-, þurrkara- og uppþvottavélarnotkun
– Fresta hleðslu rafbíla og annarra stórra tækja
Með því hjálpumst við að við að minnka líkur á skömmtun og tryggja stöðugt rafmagn til allra. Við þökkum fyrir skilninginn og biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem af þessu gæti orðið,” segir í tilkynningunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst