Vestmannaeyjabær hefur auglýst tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035 við Ofanleiti, þar sem gert er ráð fyrir breyttum skipulagsmörkum athafnasvæðis AT-4, frístundabyggðar F-1 og landbúnaðarsvæðis L-4.
Samhliða er auglýst nýtt deiliskipulag fyrir athafnasvæðið við Ofanleitisveg og breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar á sama svæði. Tillögurnar eru unnar með umhverfismatsskýrslu sem liggur frammi með gögnunum.
Breytingarnar fela meðal annars í sér að lóð við Ofanleitisveg 26, sem nú tilheyrir frístundabyggð, verði hluti af athafnasvæðinu. Þá verða stofnaðar tvær nýjar lóðir í suðurhluta svæðisins á landi sem áður var skilgreint sem landbúnaðarsvæði.
Áætlað er að byggingarreitir bætist við á nokkrum lóðum, þar á meðal við Ofanleitisveg 25, 26, 28 og 33–37, með hámarkshæð húsnæðis á bilinu 4–5 metrar.
Skipulagsgögn má skoða í Ráðhúsi Vestmannaeyja og á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Umsagnir og athugasemdir skulu berast í gegnum skipulagsgátt eða skriflega í Ráðhúsinu. Frestur til að skila athugasemdum er til og með 21. október 2025.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst