Það var mikið hlegið í gær í Eldheimum þegar Óli Gränz kynnti nýútkomna endurminningabók sína á frestaðri dagskrá Safnahelgar.
Fjölmenni lagði leið sína til að hlýða á þennan ástsæla Eyjamann segja frá lífshlaupi sínu af einlægni, gleði og hreinskilni, eins og honum einum er lagið. Bókin „Óli Gränz“ hefur að geyma endurminningar Carls Ólafs Gränz, iðnmeistara og gleðigjafa frá Vestmannaeyjum.
Óli fæddist í Eyjum 16. janúar 1941 og hefur alla tíð verið áberandi í bæjarlífinu. Í bókinni segir hann frá æsku og uppvexti, sjómennsku og smíðastörfum, fjölskyldulífi, pólitískri þátttöku og ófáum prakkarastrikum. Þá rifjar hann einnig upp eftirminnilegt augnablik þegar hann og Hjálmar Guðnason urðu vitni að upphafi Heimaeyjargossins 1973.
Óli, sem bjó meðal annars í Jómsborg, á Kirkjuvegi 88 og í Breiðabliki, var til sjós á yngri árum og starfaði síðar sem smiður í Vestmannaeyjum í yfir 40 ár. Líf hans hefur verið viðburðaríkt. Meðal annars eignaðist hann sjö börn á átta árum og sögurnar endurspegla þann einstaka húmor og lífskraft sem einkennt hefur nærveru hans í gegnum árin.
Bókin er 315 blaðsíður, prýdd fjölda ljósmynda, skráð af Guðna Einarssyni og gefin út af Bókaútgáfunni Hólum.
Eitt einkenni bókarinnar er að hún er full af stuttum og hnitmiðuðum köflum eða frásögnum og það er því einstaklega þægilegt að detta ofan í bókina, skoða og lesa kaflana og fletta jafnvel fram og til baka.
Á bókakynningunni í gær fengu gestir að heyra Óla segja nokkrar slíkar sögur úr bókinni ásamt því að hann rifjaði upp atburði sem snerta Eyjarnar og sögu þeirra með beinum hætti.
Ljóst er að bókin er dýrmætt framlag til hins fjölbreytta sagnaheims Vestmannaeyja, sögð á mannamáli, með hjarta og húmor að leiðarljósi.
Hér að neðan má sjá myndband Halldórs B. Halldórssonar frá dagskránni. Einnig má sjá myndasyrpur Óskars Péturs, Halldórs B. og Tryggva Más þar sem glöggt má sjá hversu hlýleg og skemmtileg stemmningin var.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst