Vel sótt minningarstund um fórnarlömb umferðarslysa
Frá minningarstundinni. Eyjafréttir/Eyjar.net: ÓPF

Gærdagurinn var tileinkaður minningu þeirra sem látið hafa lífið í umferðinni. Fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fleiri viðbragðsaðilar stóðu fyrir táknrænum athöfnum víða um land. Markmið minningarstundarinnar var að hvetja fólk til að staldra við og íhuga ábyrgð hvers og eins í umferðinni, en ekki síður að sýna þakklæti gagnvart þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun þegar slys verða. Að þessu sinni var lögð sérstök áhersla á mikilvægi öryggisbelta, sem reynast oft úrslitaatriði þegar á reynir.

Alþjóðlegur minningardagur Sameinuðu þjóðanna

Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 2005 tileinkað þriðja sunnudegi í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Auk þess að heiðra minningu þeirra sem farist hafa, hefur skapast sú venja hér á landi að beina sjónum að sérstöku forvarnarviðfangsefni sem tengist banaslysum. Í ár er sjónum beint að notkun öryggisbelta.

Öryggisbelti eru einn mikilvægasti öryggisbúnaður bifreiða og geta minnkað líkur á dauðsfalli í fólksbílum um allt að 45%. Fjölda banaslysa og alvarlegra slysa hefði mátt fyrirbyggja ef öryggisbelti hefðu verið notuð.

Hvers vegna minningardagur?

Á heimsvísu láta um 3.600 manns lífið í umferðinni á degi hverjum og hundruð þúsunda slasast. Það jafngildir um 1,3 milljónum dauðsfalla ár hvert. Tölurnar undirstrika mikilvægi þess að minna á varúð, ábyrgð og forvarnir í umferðinni.

Á Íslandi hafa 1.632 einstaklingar farist í umferðinni frá því fyrsta banaslysið var skráð 25. ágúst 1915 (staða 13. nóvember 2025). Enn fleiri hafa slasast alvarlega og lifa með afleiðingunum — áföllum, sorg og eftirsjá sem snerta fjölskyldur, vini og samfélagið allt.

Minningarstund við kirkjugarðshliðið

Vel var mætt á minningarstundina við kirkjugarðshliðið í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Þar komu Eyjamenn saman til að votta virðingu og samstöðu með þeim sem misst hafa ástvini í umferðinni. Kveikt var á kertum og skapaðist hlý og virðuleg stund í kyrrð kvöldsins, þar sem minning og umhugsun fengu að ráða för. Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari Eyjafrétta mætti og tók meðfylgjandi myndefni.

Þessu tengt: Fórnalamba umferðaslysa minnst í dag

Nýjustu fréttir

Elliði Snær skoraði átta mörk í jafntefli Íslands
Fylgi flokkanna í Eyjum
Komu inn vegna veðurs
Afslættir hverfa með bættu raforkuöryggi
Jason Stefánsson meðal útskriftarnema FÍV 
Foreign Monkeys gefa út þriðju breiðskífu sína – „III“
Úttekt á fasteignagjöldum ársins
Mikil gróska í fimleikastarfi og mót framundan
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.