Þorlákur Árnason hefur sagt upp stöðu sinni sem þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu, en ákvörðunin tók gildi strax við afhendingu uppsagnarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍBV.
Stjórn knattspyrnudeildar ÍBV segir í tilkynningunni að hún harmi ákvörðun Þorláks, en þakkar honum jafnframt fyrir góð störf á liðnum misserum og þann árangur sem náðist á síðasta keppnistímabili.
„Stjórn knattspyrnudeildar ÍBV þakkar Þorláki fyrir tíma hans hér í Eyjum og þann góða árangur sem liðið náði á sl. keppnistímabili. Þorláki er óskað velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann mun taka sér fyrir hendur,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Stjórnin mun nú hefja leit að nýjum þjálfara fyrir karlaliðið og segir ferlið hafið strax.