Vera Lífsgæðasetur var stofnað í október 2024 af öflugum hópi fagkvenna sem starfa í tengdum greinum. Þar koma saman einyrkjar sem sameinast undir einu þaki og bjóða upp á heildræna þjónustu fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Í Veru starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga, meðal annars sálfræðingur, næringarfræðingur, talmeinafræðingur, félagsráðgjafi, þroska- og einhverfuráðgjafi og hjúkrunarfræðingar.
Markmið Veru er að einfalda fólki leiðina að réttri aðstoð, bjóða upp á heildstæða nálgun undir einu þaki og skapa umhverfi þar sem fagfólk vinnur saman að því að efla einstaklinga í leik og starfi.
Í dag stendur setrið fyrir ráðgjöf, meðferð, greiningum og þjálfun einstaklinga, ásamt fjölbreyttum námskeiðum og fræðslupökkum fyrir hópa sem snúa meðal annars að svefni, næringu, andlegri og líkamlegri heilsu og samskiptum. Þá hefur Vera einnig lagt áherslu á að bjóða upp á vinnuvernd fyrir fyrirtæki og þróað námskeið og vinnustofur sem styðja við sálfélagslega þætti starfsumhverfisins.
Við fengum að heyra í þeim Tinnu Tómasdóttur og Thelmu Rut Grímsdóttur sem eru á meðal stofnenda setursins.

Upphafið og mótun ferlisins
Þetta byrjaði fyrir tveimur árum. Við höfðum stofnað hóp einyrkja sem allar störfuðu í svipuðum geirum og unnu að tengdum málefnum. Í byrjun voru margar hugmyndir á lofti um hvað við ætluðum að gera og hvert við stefndum, en grunnmarkmiðið á bak við samstarfið var að mynda öflugan hóp fagfólks sem starfar bæði sjálfstætt og um leið sem ein heild og auðveldað þannig fólki að finna réttu þjónustuna og vísað áfram til rétts aðila þegar þörf væri á.
Með því að mynda hóp kemur hver og ein inn með sína sérfræðiþekkingu og reynslu sem við getum púslað saman og þannig skapað eitthvað magnað. Þetta samstarf styrkir okkur í raun allar sem fagmanneskjur.
Við vorum lengi að velta þessu fyrir okkur, svo í október í fyrra bauðst okkur húsnæði fyrir starfsemina og þá var bara að hrökkva eða stökkva. Við ákváðum að slá til og stofnuðum fyrirtækið formlega í lok desember.
Í mars 2025 fluttum við starfsemina hingað á Hilmisgötu 13, þá fjórar saman, en síðan þá hafa bæst fleiri við. Arna Hrund, Ragnheiður Perla og Sigurlaug eru nú orðnar hluti af hópnum og við erum í samskiptum við fleiri aðila með ýmsar spennandi hugmyndir um samstarf. Fólk hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og leitað til okkar, sem hefur verið ótrúlega ánægjulegt.
Bjóða upp á fræðslu og sérsniðna þjónustu
Það sem við höfum verið að leggja áherslu á upp á síðkastið er Vera vinnuvernd, en í öllum fyrirtækjum á að vera áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Við höfum útbúið námskeið og vinnustofur sem miða sérstaklega að sálfélagslegum þáttum og erum að fara af stað með það.
Við erum nú þegar farnar af stað með fyrirlestra og bjóðum upp á fjölbreytta fyrirlestra sem hægt er að aðlaga að þörfum hvers og eins hóps. Fyrirlestrarnir sem við höfum verið með hafa snúið að ýmsum þáttum sem miða að því að styrkja einstaklinginn í daglegu lífi og höfum við fjallað meðal annars um jafnvægið milli vinnu og einkalífs, að takast á við erfiðar tilfinningar, þakklæti og fleiri þætti sem skipta máli eins og svefn, næringu, andlega líðan og fleira.

Ef fyrirtæki eða hópar eru með eigin hugmyndir eða sérstakar þarfir getum við auðveldlega sniðið efnið að þeim. Við erum einnig með sterkt tengslanet fagfólks sem getur tekið þátt með okkur eftir þörfum, svo sem sjúkraþjálfara, lækna og fleiri sérfræðinga.
Á heimasíðunni okkar, www.veralif.is má sjá dæmi um þau námskeið og verkefni sem við höfum unnið að, en við leggjum alltaf áherslu á að mæta þörfum hvers hóps sérstaklega.
Framundan
Við erum nú í viðræðum við nokkra aðila um spennandi nýjungar sem gætu bæst við starfsemina á næstu mánuðum. Einnig erum við með hugmynd að heildrænu námskeiði fyrir foreldra ungra barna þar sem við sameinum krafta okkar og bjóðum upp á yfirgripsmikla fræðslu um uppeldi, daglegt foreldrahlutverk og verkfæri sem nýtast í amstri dagsins.
Nú fyrir jólin bjóðum við einnig upp á stuttan fyrirlestur fyrir fyrirtæki og hópa sem ber heitið:
„Er aðventan kertaljós og knús” ? – eða stress, endalausir innkaupalistar og taugatitringur?“
Fyrirlesturinn fjallar um hvernig draga má úr streitu á aðventunni og hvernig hægt er að njóta þessarar árstíðar betur.
Ef fólk vill hafa samband er hægt að senda okkur póst á vera@veralif.is




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst