Óli Gränz er heiti endurminninga Carls Ólafs Gränz, iðnmeistara og gleðigjafa, frá Vestmannaeyjum. Hann fæddist í Eyjum 16. janúar 1941 og hefur lagt gjörva hönd á margt á lífsleiðinni. Var ungur til sjós og síðar farsæll iðnaðarmaður, rak bílaleigu og verslun, settist á Alþingi og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, var bókaútgefandi á heimsvísu og mikilvirkur í félagsmálum. Óli segir frá æsku sinni og uppvexti, þátttöku í atvinnulífi og pólitík, einkamálum, prakkarastrikum og eldgosunum í Surtsey og Heimaey. Bókin er 315 bls. og prýdd fjölda mynda. Guðni Einarsson skráði. Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar. Hér birtast tveir stuttir kaflar úr bókinni.
„Við Hjalli (Hjálmar Guðnason) tókum Hrauney á leigu 1968 ásamt Gauja á Látrum, Guðjóni Þ. Jónssyni, og Kela í Sandprýði, Þorkeli Húnbogasyni Andersen, og byggðum veiðihúsið Hraunbæ í Hrauney. Það var byggt úr einingum sem við höfðum smíðað í landi. Kofinn vó alls fjögur tonn og tvö hundruð kíló. Við settum langan kaðal í kringum toppinn á Hrauney, í 92 metra hæð, og svo voru margir teinar alla leið niður í sjó. Við hífðum einingarnar, með gleri og öllu saman, upp í eyna á kaðlinum. Hvert hlass var um 300 kíló. Þegar báturinn tók í snerist upp á kaðalinn og mótstaðan var það mikil að hver hífa lyftist hægt upp úr bátnum og snerti aldrei sjó.
Hjalli hafði ekki haft neina trú á þessu og ef fyrsta hífan hefði ekki heppnast hefði ekki orðið neitt framhald á þessari aðferð. Hlössin fóru rólega upp í 60 metra hæð við kofastæðið. Þá var gefið merki úr eynni, kúplað frá á bátnum og hlassið dró hann aftur á bak og lagðist mjúklega við kofastæðið. Þeir komu úr hinum úteyjunum til að sjá þetta undur. Voru allir búnir að hífa efnið í sína kofa upp í eyjarnar á lúkunum.
Einu sinni kom Sigurgeir Jónasson, Álseyingur, ljósmyndari og lundaveiðimaður frá Skuld, og sagði: „Óli, þú ert búinn að eyðileggja úteyjalífið í Vestmannaeyjum. Þú ert kominn með kæliskáp!“ Við vorum með gasknúinn kæliskáp og eldavél auk þess sem þetta var fyrsti úteyjakofinn með þreföldu gleri. Það var bara upp á húmorinn. Svo kom Sigurgeir hálfum mánuði seinna og spurði hvar ég hefði fengið kæliskápinn? Nú eru allir komnir með kæliskápa, sánaklefa og annan lúxus í úteyjarnar og flottasti kofinn er í Álsey.
Hjalli var eini alvöru lundaveiðimaðurinn í okkar hópi og vanur lundaveiðum, búinn að vera í nokkur sumur í Álsey með Ella í Ólafshúsum, Erlendi Jónssyni, sem var hálfbróðir Guðna, pabba Hjalla. Svo missti Hjalli áhugann á veiðinni. Eftir það veiddum við bara í soðið fyrir fjölskyldur okkar.”

„Steini stóri, Aðalsteinn Sigurjónsson bankaútibússtjóri, kom nokkrum sinnum í Hrauney til að slappa af. Hann var alltaf árrisull og yndislegur vinur. Einu sinni ræsti hann mig og sagði: „Það er máfur hérna í byggðinni. Skjóttu hann!“ Við vildum bægja máfunum frá lundabyggðinni. Ég sagði honum að ég væri sofandi og ætlaði að sofa áfram. Hann skyldi bara skjóta máfinn sjálfur. Eftir smástund vakti hann mig aftur og sagði: „Máfurinn er hér enn.“ Ég fór út með riffilinn og fretaði á máfinn. Ég heyri enn hláturinn í Steina þegar máfurinn tók flugið hlæjandi á burt. Svo, þegar fuglinn var kominn vel út fyrir eyjuna, stífnaði hann upp og skrúfaðist niður í sjó, steindauður. Þá hætti Steini að hlæja og spurði: „Óli, hvað skeði?“ Ég svaraði því til að ég væri á nærbrókunum og hefði þurft að skjóta máfinn þannig að hann kæmi sér sjálfur út af eynni áður en hann dræpist. Steini trúði því að ég væri meistaraskytta.
Einhverju sinni vorum þeir Hjalli og Gaui á Látrum úti í Hrauney. Það var mjög gott veður og Anna Svala, kona Gauja, hringdi í mig og spurði hvort ég væri ekki til í að skreppa aðeins út í Hrauney. Hún var þá kasólétt. Gaui og Hjalli höfðu boðið Ameríkana með sér og hann býsnaðist mikið yfir því að hafa farið upp 32 metra á bandi og fannst það mikið afrek og glæfralegt.
Þeir sátu í mestu makindum í kofanum þegar Anna Svala kom þar inn með óléttubumbuna og spurði: „Hvað segið þið, strákar?“ Ameríkaninn varð orðlaus en þetta vafðist ekkert fyrir Önnu Svölu þótt ekki væri hún kona einsömul.”




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst