Eyjafréttir hafa síðustu misseri verið á ferðinni í verslunum bæjarins, skoðað úrvalið og rætt við kaupmenn um vinsælustu gjafavörurnar í aðdraganda jólanna. Við heyrðum í Jónu Grétu hjá verslun GÞ, sem býður upp á fjölbreytt og vandað úrval fyrir jólin.
Aðspurð hver sé vinsælasta gjafavaran um þessar mundir segir Jóna það án efa vera rúmfötin.
„Líkt og oft áður eru það rúmfötin sem eru vinsælust í jólapakkana. Fyrir þá sem eiga allt mæli ég með góðum og mjúkum rúmfötum, eða gjafabréfi þannig að fólk geti valið sér sjálft. Einnig eru sængur og koddar góð og vinsæl gjafavara ásamt náttfatnaði og sloppum.“
Hún segir jólaverslunina hafa farið vel af stað og að þau séu afar þakklát fyrir það. Að hennar mati sé þetta alltaf ákaflega skemmtilegur tími í verslunarrekstri og segir tímann verða enn skemmtilegri þegar jólasveinarnir fari að laumast að finna eitthvað sniðugt handa börnunum í skóinn, enda nóg til af sniðugu í versluninni. Hún telur jafnframt að fólk sé almennt fyrr á ferðinni en áður með jólainnkaupin, sem lengi þennan tíma.
Verslunin er þekkt fyrir fjölbreytt úrval sem henti breiðum aldurshópi. Meðal annars má finna gjafavöru merkt liðum í enska boltanum en það úrval fer sífellt stækkandi. Ilmkerti og híbýlailmir njóta einnig mikilla vinsælda, ásamt demantsmyndunum sem hafa slegið í gegn. Þá er þar að auki að finna gott og fjölbreytt úrval fyrir hannyrðafólk.
Aðspurð hvað Jónu þyki skipta mestu máli í vali á gjöfum telur hún mikilvægasta þáttinn vera að velja gjöf út frá einstaklingnum sem á að fá hana, það sé alltaf gaman að hitta í mark, en leggur þó áherslu á að hugurinn á bak við gjöfina skipti alltaf mestu máli.
Að lokum vill Jóna óska öllum gleðilegra jóla.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst