Um áramót – Hörður Baldvinsson – Framkvæmdastjóri Þekkingarseturs
Það er mikill kostur að hafa bjartsýnina að leiðarljósi og reyna að vera jákvæð, þrátt fyrir að stundum séu ytri aðstæður erfiðar. Við hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja erum bjartsýn á framtíðina og erum þess fullviss að í Vestmannaeyjum sé fullt af frábæru fólki sem vill eiga heima hér, stunda vinnu og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins.
Oft er það þannig að ekki gengur alltaf vel að fá fjármuni til þess ýta verkefnum úr vör eða klára þau sem hafa verið í fjársvelti um langt skeið. Þekkingarsetur Vestmannaeyja er á fjárlögum og fær ákveðna upphæð á ári til að vinna að ýmsum viðfangsefnum fyrir ríki og bæ. Oft er mikil vinna við að afla aukinna tekna í nauðsynleg verkefni að okkar mati.
Það er mjög jákvætt fyrir Þekkingarsetrið að Vestmannaeyjabær og starfsmenn þess hafa ávallt stutt vel við starfsemina með ýmsum hætti sem ber að þakka. Einnig hafa mörg fyrirtæki hér í bæ lagt okkur lið með lánum á allskonar búnaði og þekkingu sem hægt hefur verið að nota við prófanir og í rannsóknum.
Á síðustu árum hafa fengist fjármunir til þess að fara af stað með margt sem gengið hefur vel, aukið þekkingu og skapað atvinnu hér í Vestmannaeyjum. Má þar nefna notkun kafbáta við fiskileit, veiðar á rauðátu við Vestmannaeyjar og hvernig nýta má glatvarma sem fellur til hér í Eyjum svo einhver dæmi séu tekin.
Þekkingarsetrið rekur tvo rannsóknarbáta sem hafa í nógu að snúast og ekki annað að sjá að svo muni verða áfram næstu árin. Ýmislegt verður að bíða vegna skorts á fjármagni, s.s. rannsóknir á viðgangi humars hér við Eyjar, veiðar á krabba við suðurströndina og viðfangsefni tengd orkuöflun. Framtíðin er björt þrátt fyrir hátt rafmagnsverð, litla loðnu og magran makríl.
Skrifað að beiðni Eyjafrétta sem fengu nokkra menn og konur til að líta yfir liðið ár og fram á veginn.






















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst