Fimm skip til loðnuleitar
Heimaey VE er eitt þeirra skipa sem heldur til loðnuleitar í dag. Eyjafréttir/Eyjar.net: Óskar P. Friðriksson

Loðnuleit er nú að hefjast af fullri alvöru og taka alls fimm skip þátt í henni. Um er að ræða hafrannsóknaskipin Árna Friðriksson og Þórunni Þórðardóttur auk veiðiskipanna Barða NK, Heimaey VE og Polar Ammassak.

Rætt er við Theodór Haraldsson, skipstjóra á Barða á vefsíðu Síldarvinnslunnar og er hann spurður nánar út í fyrirhugaða leit. Að hans sögn lét Þórunn Þórðardóttir úr höfn fyrir sunnan í gær og mun Árni Friðriksson halda til leitar frá Akureyri. Öll þrjú veiðiskipin eru í Neskaupstað og er gert ráð fyrir að þau leggi af stað í dag klukkan 13.

„Þrír starfsmenn Hafrannsóknastofnunar verða um borð í Barða og einnig í Heimaey. Veðurútlit er gott næstu daga og reiknum við með að leitin standi yfir í fimm til sex daga. Undanfarið hafa borist fréttir frá togurum um loðnu bæði austur og norðaustur af landinu og það er auðvitað jákvætt. Við leggjum af stað bjartsýnir og vonandi gengur leitin vel og skilar góðum árangri. Þetta er virkilega spennandi,“ sagði Theodór.

Þá hóf grænlenska skipið Polar Amaroq loðnuveiðar austur af landinu um klukkan fjögur í nótt. Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Geir Zoëga, skipstjóra skipsins, um klukkan tíu í morgun.

„Við erum að dæla eftir fyrsta hol en togað var í um fimm tíma. Aflinn er um 250 tonn og þetta er flott byrjun. Við erum austur af Seyðisfjarðardýpinu, um 50–60 mílur út af Norðfjarðarhorni. Hér er talsvert að sjá og góð loðnulykt. Gert er ráð fyrir að landa í Neskaupstað og við gætum hugsanlega verið komnir að landi í fyrramálið. Ég veit að menn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar bíða spenntir eftir hráefni. Loðnan virðist vera stór og falleg og örugglega úrvalshráefni. Hér um borð eru menn kátir og glaðir og við höfum einnig fengið loðnufréttir að norðan. Vonandi mun loðnuleitin sem nú er að hefjast skila góðum árangri,“ sagði Geir.

Nýjustu fréttir

Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun
Elliði með fimm mörk í stórsigri Íslands
Herjólfur í Þorlákshöfn í dag og á morgun
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Dagvistunarmál til umræðu á fundi fræðsluráðs
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.