Undanfarin tvö til þrjú ár hefur verið unnið að uppfærslu og endurnýjun á öllum kerfum og hugbúnaði Eyjasýnar, sem gefur út Eyjafréttir og heldur úti fréttasíðunni eyjafrettir.is. Nú er ákveðnum áfanga náð sem skilar öflugri þjónustu við áskrifendur, en í síkvikum heimi fjölmiðla og tækni má ekki sofna á verðinum. Þess vegna verður haldið áfram á sömu braut.
Eins og tryggir lesendur eyjafrettir.is sjá hefur útlit og viðmót tekið breytingum og verið fært til nútímahorfs. Það hefur skilað fleiri lesendum og fyrirtæki og stofnanir sjá þar öflugan vettvang fyrir auglýsingar sínar. Í dag kom út fyrsta tölublað Eyjafrétta, öflugt að venju með fjölbreyttu og skemmtilegu efni. Nú er að hefjast 53. árið í samfelldri útgáfu Eyjafrétta og því við hæfi að stokka upp. Fyrsta skrefið er nýtt útlit, bæði á forsíðu og innsíðum. Þetta er mikilvægt framfaraskref, en þau verða fleiri og allt miðar að öflugra blaði og betri þjónustu við trygga lesendur.
Í blaðinu er Fréttapýramídinn, sem afhentur var fyrr í mánuðinum, eðlilega fyrirferðarmikill. Þar ber hæst að Eyjafólk ársins 2025 eru heiðurshjónin Hjalti Kristjánsson læknir og Vera Björk Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þau prýða forsíðu blaðsins á morgun.
Þar eru einnig hinir einstöku Glacier Guy’s í einlægu viðtali og Birkir Hlynsson rakari segir frá reynslu sinni og nokkurra félaga af hárígræðslu í Istanbúl í Tyrklandi. Ekki er síður áhugavert viðtalið við Birgi Nielsen, trommara og iðnnema. Þá fáum við heilsuráð í upphafi árs frá Hildi Sólveigu sjúkraþjálfara. Þetta og margt fleira í janúarblaði Eyjafrétta.
Ritstjórn Eyjafrétta og eyjafrettir.is vill þakka gott samstarf í gegnum árin og stefnir á að gera enn betur á nýju ári.