ÍBV – Stolt Eyjanna
ÍBV. fótbolti. karlar
Lúðvík Bergvinsson

Það hafa komið þeir tímar að erfitt hefur verið að vera hvort tveggja stuðningsmaður Arsenal og ÍBV. Hafandi stutt þessi lið í áratugi þá hefur maður upplifað bæði hæðir og lægðir; jafnvel svo að um munar. Í síðustu viku munaði minnstu að ég afmunstraði mig varanlega úr skipsrúmi hjá Arsenal, þ.e. þegar félagið hugðist rífa upp rætur sínar í London, að mér fannst, og hefja samstarf við stærstu félög Evrópu í einhverskonar prívat deild útvalinna stórklúbba Evrópu; já þar komst ég næst því á minni ævi að segja skilið við mitt gamla lið fyrir fullt og fast. Það bjargaðist þó, reyndar á frækilegan hátt, en einsog alkunna er kom almenningur vitinu fyrir eigendur félagsins á síðustu stundu og þátttaka þess í súperdeildinni var afturkölluð. Þarna fannst mér öllu því góða sem íþróttir kunna að geta gefið fyrir leikinn og stuðningsmenn hans á haus snúið. Í mínum huga hafa íþrótta- og ungmennafélög þann megintilgang að skila einstaklingum, sem taka þátt í starfi þeirra, sem betri manneskjum út í samfélagið; þ.e. þau eiga að hjálpa þeim sem þar taka þátt að verða besta útgáfan af sjálfum sér, einsog sagt er á hátíðastundum, og skila þeim þannig út í samfélagið. Þetta finnst mér eiga að vera leiðarstef í starfi allra íþróttafélaga. Það gleymist nefnilega svo oft að það verða ekki allir stjórstjörnur eða efnaðir af því einu að taka þátt íþróttastarfi; það er aðeins lítið brotabrot af þeim sem þar taka þátt ef nokkur sem nær slíkum hæðum. Það er því óhætt að segja að það var allt önnur og betri tilfinning sem helltist yfir þegar ég fékk tíðindi af því að íþróttafélagið mitt, ÍBV, hefði tekið fast og fagmannlega á atviki innan félagsins þegar einstaklingur kom fram við félaga sinn á þann hátt sem aldrei má samþykkja. Nýverið átti sá atburður sér stað að einstaklingur í meistaraflokki ÍBV dreifði og deildi nektarmyndum af ungum og efnilegum leikmanni liðsins á alnetinu, án hans samþykkis. Hafandi tekið þátt í og leikið knattspyrnu í efstu deildum hér á landi; þekkjandi þann menningarheim sem knattspyrnumenn lifa í frá degi til dags, þá er ég viss um að það hefði verið mun einfaldara fyrir alla, þ.m.t. stjórnarmenn í ÍBV, að reyna að leysa svona mál í myrkvuðu bakherberbergi bak við luktar dyr í stað þess að taka af einurð á þeim vanda sem stafrænt ofbeldi er. Í þessu samhengi má nefna að dómstólar hafa verið að gera einstaklingum fangelsisrefsingu fyrir slíkt framferði, auk þess sem ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á rannsóknir á svona ofbeldi. Í þessu tilviki var gerandinn einn besti og þekktasti knattspyrnumaður liðsins. Málið var því augljóslega erfitt fyrir alla þegar það kom upp. Það hefur því verið erfið ákvörðun fyrir stjórnina að láta gerandann fara frá félaginu. Gerandinn hefur sagt að „húmor“ hafi verið leiðarljós verknaðarins; en mögulega „húmor“ hvers? Það er almennt þannig að þegar einelti á í hlut er það jafnan gert í skjóli einhvers meints „húmors,“ en sennilega þó aðallega á grunni skorts á sjálfstrausti. Vonandi lærir gerandinn eitthvað af þessu og kemur út sem sterkari og betri einstaklingur síðar á lífsleiðinni. Það er þó ekki síðar aðdáunarvert að horfa upp á það þegar ungir og mjög svo efnilegir menn, einsog sá sem fyrir ofbeldinu varð, standa upp og lýsa yfir því að þeir láti ekki bjóða sér slíka framkomu, sama hver á í hlut. Það hefði nefnilega verið svo miklu auðveldara fyrir hann að gerast viðhlæjandi gerandans; það hefði leyst svo margt og einfaldað lífið. Það gerði hann ekki og hann stóð með sjálfum sér. Ég er því stoltur af viðbrögðum þess sem fyrir ofbeldinu varð; ég er stoltur af stjórnarmönnum ÍBV sem tóku þá ákvörðun um að láta gerandann fara; og ég er stoltur af félaginu mínu sem brást svona við. Það er ljóst að ég mun bera höfuðið hátt þegar ég mæti á völlinn í sumar, vongóður um sterkari liðsheild en ella hefði verið, hver svo sem framherji liðsins verður. Það er nefnilega ekki erfitt að styðja svona félag hvernig svo sem úrslitin eru; félag sem að minni hyggju hefur sett fordæmi fyrir önnur íþróttafélög; félag sem byggir á langtímahugsun varðandi orðstír. Svona eiga íþróttafélög nefnilega að vera.

Lúðvík Bergvinsson,
lögmaður, og fyrrverandi leikmaður ÍBV

Nýjustu fréttir

Veit Inga hvað hún syngur?
Norðurinngangur við sjúkrahúsið opinn á ný
Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Glacier Guys með nýtt föstudagslag
„Úttroðinn af loðnu”
Fréttapýramídar afhentir fyrir nýliðið ár
Karlar hvattir til að sýna handverk

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.