Neistinn kveiktur í Eyjum er fyrirsögn á leiðara Morgunblaðsins í dag þar sem segir í byrjun að læsi sé verulega ábótavant hér á landi og hafi svo verið um nokkra hríð. Svo segir: „Í fyrrahaust var hafist handa við verkefni í Vestmannaeyjum, sem nefnist Kveikjum neistann. Í vor lágu fyrir niðurstöður eftir fyrsta veturinn og lofa þær það góðu að vert er að skoða rækilega hvort hér sé komin leið til að snúa við blaðinu. Hvatamaður verkefnisins Kveikjum neistann er Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Norska tækni- og vísindaháskólann og Háskóla Íslands. Hermundur hefur skrifað reglulega um þessi mál í Morgunblaðið. Verkefnið hófst í haust og verður nemendum sem þá hófu nám fylgt eftir upp allan grunnskólann.

Segir að Hermundi svíði að staða margra nemenda sé ekki góð og segir að hún gæti hæglega verið betri. Tölur úr alþjóðlegu PISAmenntarannsókninni bendi til að íslensk ungmenni búi nú yfir minni grunnfærni í lestri, stærðfræði og náttúrufræði en þau gerðu fyrir 20 árum.

Í Sunnudagsmogganum er grein, sem Hermundur skrifar ásamt Einari Gunnarssyni, aðstoðarskólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyja. Þar kemur fram að árangurinn af verkefninu, Kveikjum neistann er betri en menn þorðu að vona og að bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum og yfirvöldum við grunnskólann hafi strax litist vel á verkefnið. Bókasafn Vestmannaeyja lagðist einnig á árarnar og ráðist var í verkefnið í samstarfi við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands.

„Niðurstöðurnar sýna að allir nemendur, sem luku 1. bekk í grunnskólanum í vor, geta lesið orð. Kallast það að börnin hafi brotið lestrarkóðann og felst í því að þau hafi áttað sig á að hljóð tengist þannig að úr verði orð. 96% geta lesið setningar og 88% samfelldan texta.

Verkefnið Kveikjum neistann byggist á sérstakri aðferð til að kenna lestur með því að nota bókstafi og hljóð. Hver nemandi fær verkefni við sitt hæfi og er fylgt rækilega eftir með stöðumati, þjálfun og eftirfylgni. Jafnframt snýst verkefnið um að vekja ástríðu nemenda. Sérstakir ástríðutímar eru eftir hádegi þrjá daga þar sem nemendur geta valið um smíði, myndlist, textílmennt, heimilisfræði eða tónlist og er ætlunin að fjölga greinunum. Á þetta að auðvelda nemendum að finna fjölina sína og gefa þeim færi á að auka færni sína í því sem vekur áhuga þeirra,“ segir í leiðarnum og það hefur tekist.

Það er ástæða til að óska öllum sem verkefninu koma til hamingju og gaman verður að fylgjast með því næstu árin. Það vekur þó athygli hvað Neistinn í Eyjum hefur flogið lágt. Fyrir meira en ári skrifaði undirritaður frétt í Morgunblaðið um Neistann sem fékk gott pláss í blaðinu og hefur því verið fylgt eftir af myndarskap.

Ekki hef ég rekist á umfjöllun í öðrum fjölmiðlum, en á von á að Hringbraut, Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísir.is muni greina frá þessu. En Vestmannaeyjar eru ekki inni á ratsjánni hjá Ríkisfjölmiðlinum þegar jákvæðar fréttir eru annars vegar. Alls ekki.

Ómar Garðarsson.