Á lífstíðarskútunni með Óskari á Frá
Tryggvi Sigurðsson – Fór ungur til sjós – Fékk vélstjórapláss út á afa sinn:
23. júlí, 2024
Áhöfnin á Frá VE, Halldór Guðbjörnsson, Sigurður Tryggvason, Tryggvi Sigurðsson, Júlíus Óskarsson, Gústaf Sigurlásson og Guðmundur Elmar Vestmann.

Tryggvi Sigurðsson er eins innmúraður Vestmannaeyingur og hægt er að hugsa sér, þó mamman sé úr Reykjavík. Borinn og barnfæddur Eyjamaður og leit þennan heim 21. janúar 1957. Mamman Ágústa Erla Andrésdóttir og pabbinn Sigurður Tryggvason, sonur Tryggva Gunnarssonar, Labba.  

„Ég fékk strax meðbyr sem vélstjóri fyrir að vera barnabarn Labba á Horninu. Upphaflega ætlaði ég að verða skipasmiður, sá það í hyllingum að smíða eikarbáta. Var alltaf í slippnum að fylgjast með þegar bátarnir voru uppi. En einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fór í vélskólann,“ segir Tryggvi þar sem við sitjum í krónni hans við Strandveginn sem rúmar öll áhugamálin. Mótórhjól, líkön af bátum og óendanlegan fjölda af bátamyndum sem prýða alla veggi. Hefur hann komið sér upp miklu myndasafni og upplýsingum um hvern bát. Alla báta í Vestmannaeyjum frá því vélbátaöldin hófst á fyrstu árum síðustu aldar auk fjölda báta annars staðar frá. 

Baráttan við sjóveikina 

Tryggvi byrjaði til sjós 16 ára á Erlingi VE með afa sínum. „Djöfull var ég sjóveikur og losnaði seint við sjóveikina. Fjórir í áhöfn, Hjalli á Enda skipstjóri, afi vélstjóri, Dani sem hét Kristján og ég. Spilið var fyrir framan stýrishúsið og þar fylgdust Hjalli og afi með mér þar sem ég sat við lúkarskappann, búinn að æla úr mér lungum og lifur. Þá heyri ég að Hjalli segir við afa, – það er ég viss um að þessi drengur verður ekki orðinn fertugur þegar hann deyr úr elli. Það stóðst ekki og nú er ég kominn 27 ár fram yfir,“ segir Tryggvi hlæjandi og hélt áfram á sjó þrátt fyrir sjóveiki. 

 

Mótorbáturinn Erlingur VE-295 var smíðaður í Danmörku árið 1930 og var hann keyptur til Vestmannaeyja af Tryggva Gunnarssyni og öðrum. Erlingur var 23 rúmlestir að stærð. Aðalvélin var 170 HK MWM frá 1968.Erlingur var gerður út frá Vestmannaeyjum í 53 vertíðir og úreldur árið 1990.

 

Fjórir ættliðir um borð í ættarskútunni, Erlingi VE, Sigurður Árni, Tryggvi, Sigurður og Tryggvi Gunnarsson.

 

Bannað að öskra 

„Vertíðina 1975 er ég ráðinn í skipsrúm á Ingólfi VE 216 sem Siggi Óla átti. Hún var svakaleg sú vertíð, þótti ekki gott að byrja sem peyi hjá Sigga. Ég var áfram sjóveikur og allt það en náði að vinna mína vinnu. Kallinn var erfiður, mjög erfiður og ég á nokkrar sögur af því. Spurning hvort það verður sagan um buxurnar eða flautið,“ segir Tryggvi þegar  hann er beðinn um að láta eina flakka. 

„Við erum á landleið á laugardegi, framundan ball og fjör. Við þekktum stelpur á verbúðunum í Vinnslustöðinni. Þær kalla á okkur og ég veifa á móti. Þá rauk kallinn út í gluggann og sagði, – það er bannað að öskra í bátnum hjá mér,“ sagði Tryggvi um þessa fyrri viðvörun. 

„Það var svo seinna. Við vorum austur á Vík að hífa og komin bræla. Kallinn ákveður að taka hlerana inn fyrir og fara heim. Ég er á hleranum bakborðsmegin og um leið og hann er hífður inn fyrir lunninguna lendir hann á tánni á mér. Brotnaði ekki en sársaukinn því meiri og ég öskraði heil ósköp. Þá kom kallinn í bakborðsgluggann og gargaði á mig, – Það er bannað að öskra um borð í bátnum mínum,“ segir Tryggvi og gaf ekkert eftir í leikrænum tilburðum.  

Sagan um buxurnar 

„Á meðan voru peyjarnir, vinir mínir, Hjalti Hávarðar og Binni heitinn, frændi Nínonbræðranna á öðrum bátum. Binni á Heimaey og Hjalti á Danska Pétri og ég á Ingólfi.  

Þeir fengu kauptryggingu inn á banka, einu sinni í viku, 15.000 kall. Ég fékk aldrei tryggingu inn á bók. Siggi skammtaði mér 5000 kall á viku alla vertíðina en gerði svo að fullu upp við mig í vertíðarlok. Þeir voru orðnir leiðir á að ég átti aldrei krónu. Búinn með þennan 5000 kall eins og skot og lifði á þeim. Báðir hömruðu á mér að fara til kallsins og heimta 15.000 kall eins og ég átti rétt á samkvæmt samningum.  

Ég mæti heima hjá Sigga á Hólagötuna. Fékk aldrei að koma inn, varð að bíða fyrir utan á meðan hann skrifaði ávísunina. Mana mig upp um leið og hann rífur upp hurðina og hann kallar, – hvað vantar þig? Get ég fengið 12.000? Þorði ekki að segja 15.000. – Tólf þúsund kall, át hann upp eftir mér. Hvað ætlar þú að gera með það? Ég ætla að fá mér buxur, sagði ég. Ertu ekki í buxum? æpti hann og ég sagði, jú. – Bíddu aðeins, sagði hann og lokaði hurðinni og ég beið úti í rokinu. Svo kemur kallinn með ávísunina, 5000 kall. Ekki veit ég hvort hann var að  hafa vit fyrir mér, en við áttum rétt á 15.000 krónum á viku til að lifa af.“ 

Hörmulegt slys 

Tryggvi stígur fyrstu sporin sem vélstjóri á Danska Pétri með Jóel Andersen sem Emil Andersen, Malli á Júlíu átti. „Malli var rosalega fínn við mig og þarna flaut ég inn af því að Labbi á Horninu var afi minn,“ segir Tryggvi sem  kláraði 2. stigið í vélskólanum.  

 Þurfti að kaupa mér íbúð og var alltaf að halda áfram á sjó. Það gekk samt alveg, var með næg réttindi á Frá og eins og Óskar sagði, við þvælumst á milli báta  þegar við erum ungir en endum allir á lífstíðarskútunni. Hafði þetta eftir Ása í Bæ og það var þannig með mig. Ég var vélstjóri á Danska Pétri í eitt ár, hætti um áramótin 1980 og 1981 og ræð mig á Heimaey sem annar vélstjóri. 

Er þar árið 1981, lengi vel yfirvélstjóri því sá sem var yfir mér slasaðist. Þá lentum við í þessu hörmulega slysi þegar Heimaey rak upp í fjöru og tveir strákar drukknuðu, Albert Ólason og Guðni Guðmundsson.“

 

Sindri, Óskar heitinn og Sigmar Þröstur sem allir hafa verið í brúnni á Frá VE.

 

Á leið í bað þegar Rabbi hringdi 

Tryggvi var á Heimaey út árið en var á leið í bað á gamlársdag þegar síminn hringir. „Það var Þórður Rafn Sigurðsson og býður mér vélstjórapláss á Dala Rafni sem ég þáði. Þar var ég í rúm fjögur ár. Fínt að vera með Rabba og eins Gísla Garðarssyni sem var mikið með bátinn. Eðal drengur.  

Við vorum alltaf að skipta um veiðarfæri, vorum á spærling, línu, nót, fiskitrolli og netum. Ég var orðinn leiður á þessu  þegar Gylfi heitinn Úraníusson, benti mér á að það vantaði vélstjóra á Frá. Hvatti hann mig til að sækja um sem ég og gerði. Tala við Óskar og hann réði mig. Þetta var í ágúst 1984 og Frár varð lífstíðarskútan. Að vísu skiptum við um bát eftir rétt tæp tíu ár en útgerðin var sú sama.“ 

Gott að vera með Óskari 

Þið Óskar hafið smollið saman? „Já. Óskar Þórarinsson var sérstakur karakter. Virkilega gott að vera með honum og áhöfnin ekki síðri. Alltaf gaman, stanslaus stríð en allt í góðu.  Eftirminnilegir skipsfélagar eru númer eitt Gústi Lása, Árni Marz ógleymanlegur, Tói Vídó og ekki má gleyma Júlíusi  Óskarssyni stórbryta.  

Um tíma voru þrjú lið um borð. Ég var foringinn í einu, Gústi Lása í öðru og Júlli í sínu eigin liði. Gústi stríðinn og það voru alltaf styrjaldir á milli okkar og flestir í liði með Gústa. Ég á móti með ekki alveg nógu sterkan bakhjarl, Árna Marz sem þorði ekki öðru en vera í liði með mér. Annars hefði ég sent hann niður í vélarrúm að þrífa pallana.“ 

Árin líða og eðlilega verða breytingar á áhöfn og liðskipan um borð. „Þá urðum við saman í liði, ég og Gústi. En það fjölgaði líka í áhöfn. Þegar ég byrjaði vorum við sex en ellefu þegar ég hætti. Núna eru þeir ellefu og stundum tólf. Fyrst voru engar vaktir, menn stóðu eins og þurfti. Í moki togaði Óskar sig út úr fiskiríi og lét okkur sofa.“ 

 

Frár VE var smíðaður í Skotlandi árið 1977. Byggt yfir hann og lengdur árið 1993 og er 292 brúttótonn.

 

Rauði vélstjóraklefinn 

Hvernig var að vera með Óskari? „Dásamlegt. Ég hef alltaf sagt og segi, að það eru mikil forréttindi að fá að vera með honum Óskari sem skipstjóra og útgerðarmanni í um 30 ár. Hann deyr 2012 og þá tók strákurinn við, Sindri sem var í nokkur ár sem stýrimaður hjá pabba sínum og leysti hann af.“ 

Þú ert örugglega með einhverjar góðar sögur af Óskari? „Já. Þær voru margar og flottar. Sumar bannaðar innan átján. Einu sinni var Darri í Bragganum með mér sem annar vélstjóri. Þá springur pera í vélstjóraklefanum. Ég í annarri kojunni og Darri í hinni. Spennustillirinn á ljósavélinni var svo forneskjulegur að spennan gat rokið upp og sprengt allar perur. Við orðnir perulausir en ég fann rauða peru úr jólaseríunni og setti í klefann. Fá einhverja týru. Þá kemur Óskar að ræsa. Kveikir ljósið. – Það er bara svona. Lokar og fer fram og segir við næsta mann. – Ætli sé eitthvað að hjá vélstjórunum? – Ha? segir hinn. – Já, þeir eru í sitt hvorri kojunni. Svona var þetta, alltaf eitthvert fjör.“ 

Pláss út á skoruna 

Næst segir Tryggvi sögurnar af því þegar hann var að skipta um bremsuklossa í bíltík sem hann átti. „Darri leyfði mér að fara með bílinn inn á verkstæðið sitt en þegar til kemur er verkstæðið fullt og ég að brasa utan við hurðina. Tjakka bílinn upp og bogra við þetta. Kemur þá ekki Óskar á Háeyri. Horfir niður á þar sem ég er að brasa og segir við Darra. – Má þetta?  Og Darri hváir. – Má bara einhver fúskari skipta um bremsuklossana? Nei eiginlega ekki , en sérðu rassaskoruna segir Darri – Já, segir Óskar. Út á hana var hann ráðinn.“ 

Tryggvi náði sér niður á Óskari seinna. Þar kom við sögu Beggi á Skuldinni sem var með eftirminnilegri mönnum. Hann var hættur og komin ný Skuld með nýjum manni. „Við vorum að toga við Opinn foss og ég uppi í brú hjá Óskari eins og ég gerði oft. Nýja Skuldin kemur á móti okkur. Ungur strákur skipstjóri og Óskar ætlaði að kalla í hann upp á mætast. Spyr mig,  – hvað heitir strákurinn sem er með Skuldina og ég svara  strax, Beggi. – Beggi, aftur Beggi, segir Óskar og kallar, Skuld Frár og hinn svarar. Óskar segir, hvernig viltu að við mætumst Beggi minn? Ég heiti ekki Beggi, sagði hinn,“ segir Tryggvi hlæjandi. 

Bátar með karakter og sögu 

Þá er komið að stóra verkefninu, söfnun bátamynda og upplýsingar um báta sem hann deilir á Facebook-síðu sinni. „Þetta byrjaði með því að ég var að metast við pabba sem þá var á Erlingi. Þar var ég eins og heimaalningur og pabbi þekkti alla  báta. Hló að mér þegar ég hafði rangt fyrir mér en það átti eftir að breytast.  

Þetta var ekki eins og í dag. Bátarnir miklu fleiri, áhugaverðir kallar á bak við hvern bát og allt það. Hvernig bátarnir voru, hver væri flottur og hver ekki. Um þetta sagði Óskar, að ég væri með kjaftfullan haus af gagnslausum upplýsingum. Þetta byrjaði með því að ég fór að taka myndir af bátum. Það er árið 1980 þegar floti Eyjamanna var í kringum 60 bátar. Ég náði í restina af minni bátunum, þessum gömlu Vestmannaeyjabátum með sögu og karakter. Heimavarnarliðið eina sanna, bátar sem voru að toga í kringum Eyjar. Gylfi, Hafliði, Faxi, Skuldin, Sjöfnin, Baldur og Erlingur svo nokkrir séu nefndir. Svo komu stærri bátar, eins og Frár, þá sagði Beggi á Skuldinni, – það dregur fyrir sólu þegar þessi drekar koma á bleyðuna.“ 

 

Með bensín í blóðinu. Tryggvi er Drullusokkur númer eitt. Drullusokkar er félag vélhjólamanna í Vestmannaeyjum.

 

Bátalíkön og skellinöðrur 

Tryggvi hefur sett upplýsingar og myndir inn á tölvu, segist ekki vera með kjaftfullan haus af upplýsingum en hann tók áhugamálið skrefi lengra þegar hann byrjaði að smíða bátamótel sem eru um 40.  Hvert öðru flottara og vandað til verks á allan hátt. „Ég var vakinn og sofinn yfir þessu. Pælingarnar, vesenið hvernig mætti leysa þetta og hitt til að líkanið yrði sem líkast fyrirmyndinni. Hvert smáatriði grandskoðað. Ég var alveg að sprengja mig á þessu enda tók það mikinn tíma,“ segir Tryggvi og nefnir líkön af Sigurði gamla, Beiti, Dala Rafnsbátunum, Þorsteini GK, Öðlingi og Freyju RE. 

„Ég var í þessu í ein fimmtán ár og þetta reyndi á hjónaböndin,“ segir Tryggvi og nefnir þriðju delluna. „Ég hef lengi haft skellinöðrudellu. Fyrsta hjólið var Honda 50 og í dag á ég átta hjól, skellinöðrur og mótorhjól. Uppáhaldshjólið er Honda 750.“ 

 

Tryggvi með líkan af Beiti NK sem er eitt 40 bátalíkana sem hann hefur smíðað. Listaverk sem lofar meistarann.

 

Upplýsingar sem þarf að varðveita 

Upplýsingar Tryggva um báta og skip er eitthvað sem þarf að varðveita. „Ég er með upplýsingar um allan Eyjaflotann eftir að bátar urðu bátar og vélbátaöld hófst í Vestmannaeyjum 1906.  Í upphafi miðaðist þetta, því miður aðeins við Vestmannaeyjabátana. Víkkaði þetta út fljótlega, sem betur fer. Jesús minn,“ segir Tryggvi þegar hann er spurður um hvað safnið telur marga báta. „Nei. Þeir skipta hundruðum. Það er oft leitað til mín um upplýsingar um báta, alls staðar af á landinu. Það eru tíu til fimmtán furðufuglar vítt og breitt um landið sem eru í þessu. Magnús Hlynur á Stöð 2 leit við hjá mér. Oft hissa á hvar hann finnur alla þessa furðufugla og allt í einu var ég orðinn einn af þeim,“ nú hlær Tryggvi hátt og innilega með bakföllum. „Var ekki illa meint hjá mér en Magnús lét þetta fljóta með í fréttinni,“ segir Tryggvi að endingu.

 

Vinir á lífstíðarskútunni, Tryggvi Sigurðsson vélstjóri og Óskar heitinn Þórarinsson á Háeyri, skipstjóri og útgerðarmaður.

 

Grein úr 11. tbl. Eyjafrétta.

Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
Forsida 2tbl 2025
2. tbl. 2025

NÝBURAR

76e2af77 02d9 48eb B73a 24c32e2403ac
4. janúar 2025
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Katrín Rós Óðinsdóttir og Sæþór Örn Garðarsson.

NÝBURAR

Drengur
3. desember 2024
Drengur
Kaupmannahöfn
Selma Jónsdóttir og Matthías Óskarsson

NÝBURAR

Drengursnorrason
23. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Svanhildur Eiríksdóttir og Sindri Sigfússon

NÝBURAR

Lovisu
8. október 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Lovísa Jóhannsdóttir og Jökull Andri Sigurðsson

NÝBURAR

462560821 8781643355208571 772013136079801246 N
17. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Aníta Björk Friðriksdóttir og Sigurbjörn Þórður Árnason.

NÝBURAR

Tandri
13. september 2024
Drengur
Hsu, Vestmannaeyjum.
Dagur Arnarsson og Svava Tara Ólafsdóttir.

NÝBURAR

Bfec0ecf E4f8 466a 89f9 94c607ba1ec5
24. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Óskar Elías Zoega Óskarsson og Díana Ólafsdóttir

NÝBURAR

Natan Orn
14. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Þórey Lúðvíksdóttir og Elías Skæringur Guðmundsson

NÝBURAR

F4c5612c Ae8a 4d77 B83d C5f14f2007fe
26. september 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Þorgeir Þór Friðgeirsdóttir og Elín Inga Halldórsdóttir

NÝBURAR

Moller
20. september 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
William Thomas Möller og Jenný Guðnadóttir.

NÝBURAR

E50c5f3f Ddd5 4ee2 8685 Dad7e0e417ad
2. ágúst 2024
Stúlka
Fæðingadeild HVE, Akranes
Sigurdís Egilsdóttir og Gunnlaugur Örn Guðjónsson

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson
Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst