Ísfisktogarinn Vestmannaey VE kom til Eyja í gærkvöldi með fullfermi. Landað var úr skipinu í morgun, að því er segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og hann spurður fyrst um aflann.
„Þetta var að mestu stór og falleg ýsa, síðan dálítið af þorski og ufsa. Við fórum beint á Ingólfshöfðann og vorum þar. Aflinn var tekinn á 36 tímum þannig að þetta gekk afar vel. Þessi stóra ýsa virðist vera nýkominn þarna enda er síld á þessum slóðum og hún sækir í hana. Það eina sem ástæða er til að kvarta yfir er veðrið. Það vantar algerlega sumarveðrið og það er búið að vera haustveður meira og minna í allt sumar. Í þessum túr var haugasjór og lengst af 6 – 7 metra ölduhæð. Þrátt fyrir veðrið hefur fiskast vel og upp á síðkastið hefur veiðst vel bæði af ýsu og karfa. Nú er Þjóðhátíð framundan og það munu allir án efa skemmta sér vel um helgina. Það verður haldið á ný til veiða á mánudag,” segir Birgir Þór.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst