Næstu daga stefnir í eitt mesta kuldakast víðs vegar um landið síðan árið 2013. Útlit fyrir að hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fari að þolmörkum á föstudag og fram yfir helgi. Um 90% af hitaveituvatni er notað til húshitunar og því skiptir afar miklu máli að fólk sé meðvitað um hvernig nýta á það sem best, segir í tilkynningu frá Veitum.
Mikilvægt að koma í veg fyrir orkusóun
Ívar Atlason hjá HS veitum í Vestmannaeyjum segir álagið á kerfinu mikið. “Við erum í ágætis málum varðandi hitaveituna. Það er mikið álag á hitaveituna þessa stundina, með því mesta sem við höfum séð. Okkur gengur ágætlega að halda uppi þrýstingi á öllum stöðum í bænum.”
Ívar segir að ekki hafi komið til þess að grípa þurfi til takmarkana. “Að sjálfsögðu viljum við benda fólki á að koma í veg fyrir orkusóun. Hafa alla glugga lokaða osfrv. Einnig þurfa húseigendur að hafa í huga að ef ofnakerfið/gólfhitakerfið er í lagi og rétt stillt, þá er hlýtt í húsum, ekki orkusóun og orkukostnaður í lágmarki.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst