Kvennalið ÍBV átti ekki möguleika gegn Stjörnunni þegar liðin áttust við í Garðabæ í gær en lokatölur urðu 4:0. Leikurinn var reyndar í þokkalegu jafnvægi fyrsta hálftímann en eftir að Íslandsmeistararnir komust yfir, þá var einhvern veginn aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Umdeilt atvik átti sér stað í stöðunni 0:0 en þá virtist boltinn fara í hönd varnarmanns Stjörnunnar inn í vítateig og hefði verið fróðlegt að vita hvað hefði gerst, ef ÍBV hefði komist yfir í leiknum. En ekki verður horft framhjá því að Stjörnuliðið er besta lið landsins og hafa verið það síðustu tvö ár. Íslandsmeistaratitillinn bíður þeirra enda er Stjarnan með átta stiga forskot á toppi deildarinnar.
ÍBV siglir þokkalega lygnan sjó en er þó í neðri hluta deildarinnar. Tapið í gær var það fjórða í röð hjá ÍBV en það er ljóst að Eyjaliðið er ekki að fara blanda sér í baráttuna um efstu fjögur sætin. ÍBV er með sex stiga forskot á Aftureldingu, sem er í fallsæti en ÍA er neðst með eitt stig. �?essi tvö lið munu að öllum líkindum falla, hugsanlega gæti Aftuelding haft sætaskipti við FH en það verður að teljast ólíklegt.