Rúmlega ár er liðið frá því Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Eyja. Eftir að ríkisstyrk var hætt á flugleiðinni Reykjavík – Vestmannaeyjar tók Flugfélagið Ernir við og hefur flogið tvisvar á dag milli lands og Eyja allt árið um kring. Flogið er á 19 farþega skrúfuþotum og hafa þær vélar hentað vel í alla staði og eru mjög farþegavænar. Félagið hefur kappkostað að þjónusta Eyjar sem og aðra staði vel og bætir við vélum eftir þörfum hverju sinni og einnig ef um mjög stóra hópa er að ræða þá fara fleiri en ein vél í loftið á sama tíma. Ekki síst vegna þess sveigjanleika sem Ernir getur boðið hefur farþegum fjölgað jafnt og þétt og stærri hópar geta einnig nýtt sér þjónustuna.