„Við hjá bænum erum mjög ánægð með góða mætingu á íbúafundinn og góðar umræður á fundinum og þökkum þeim sem mættu,“ sagði Dagný Hauksdóttir, skipulags og umhverfisfulltrúi Vestmannaeyjabæjar eftir íbúafund á miðvikudaginn. Þar voru hugmyndir um hótel og baðlón á Nýja hrauni kynntar.
Dagný stýrði fundinum sem fór fram í gegnum fjarfundabúnað. Á hinum endanum voru Kristján Gunnar Ríkharðsson og Ásgeir Ásgeirsson hjá Tark og lýsti Ásgeir hugmyndum þeirra. Þar var líka Halldóra Hreggviðsdóttir frá Alta sem hefur umsjón með gerð skipulagsgagna. Fundurinn var á vegum Vestmannaeyjabæjar sem samþykkti þann sjötta nóvember sl. að kynna hugmyndir að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015 til 2035. Líka umhverfisskýrslu og tillögu að nýju deiliskipulagi við Skans og Skanshöfða vegna áforma um uppbyggingu baðlóns og hótels.
Hugmyndin er að á Skanshöfða verði til allt að 1500 fm baðlón. Þar rísi 2300 fm þjónustubygging með veitingastað fyrir allt að 50 gesti. Einnig allt að 90 herbergja hótel á fjórum hæðum sem snýr að Klettsvík í hlíðum Skanshöfða. Í lóninu verður jarðsjór sem hitaður verður með varmadælum. Yfir kaldasta tímann gera þeir ráð fyrir að aðeins hluti lónsins verður upphitaður til að spara orkukostnað.
Dagný upplýsti að gera mætti ráð fyrir að það tæki minnst fjóra mánuði að koma aðal- og deiliskipulagi í gegnum kerfið. Kristján Gunnar og Ásgeir sögðu að þá yrðu þeir klárir að byrja og gera þeir ráð fyrir að verkið í heild taki tólf til 18 mánuði. Stefna þeir á opnun árið 2026.
Þeir sögðu að öflug alþjóðleg hótelkeðja hefði sýnt áhuga á að reka hótel sem verður a.m.k. fjögurra stjörnu. „Við erum að selja upplifun og stílum ekki síður á veturinn sem heillar marga. Öfgar í veðri og geta í rólegheitum fylgst með skipum koma og fara er upplifun fyrir marga,“ sagði Kristján Gunnar.
Enn á eftir að útfæra ýmis atriði en sérstaða svæðisins verður nýtt í hönnun til að gera upplifinuna sem sterkasta. Að njóta lífsins á landi sem ekki var til fyrir rúmum 50 árum er eitt og sér eitthvað sem ekki er víða í boði.
Fundurinn var i Ráðhúsinu og var vel sóttur. Flestir gestanna tengjast ferðamennsku og sýndi aðsóknin það mikla vægi sem ferðaþjónusta hefur í Vestmannaeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst