Bæjarráð fór yfir stöðuna varðandi dýpkun og stöðu á Landeyjahöfn á fundi sínum í vikunni sem leið. Bæjarráð lýsir í niðurstöðu sinni um málið vonbrigðum með að dýpkun Landeyjahafnar sé enn og aftur ekki sinnt eins og sífellt er lofað. Sú staða sem upp kom í lok október, og varir enn, sýnir enn og aftur mikilvægi þess að á haustin sé dýpkunarskip til staðar með skömmum fyrirvara til þess að halda höfninni opinni.
Í ljósi þess að ekki hefur verið hægt að halda úti áætlun í Landeyjarhöfn í haust, er enn mikilvægara að áætlunarflugi verði komið á til Vestmannaeyja. Nú eru liðnar 4 vikur frá því að bæjarstjóri sendi f.h. bæjarráðs erindi til innviðaráðuneytisins varðandi ríkisstuðning við áætlunarflug til Vestmannaeyja. Engin formleg svör hafa enn borist frá ráðuneytinu.
Bæjarráð gagnrýnir að ekki sé komið á áætlunarflug til Vestmannaeyja. Ekki hefur vantað jákvæðni frá þingmönnum og ráðherrum gagnvart áætlunarflugi til Vestmannaeyja í samtölum, nú er komið að því að efna loforðin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst