Eyjafréttir óskuðu eftir að fá samning sem gerður var á milli Vestmannaeyjabæjar og Stúdíós Ólafs Elíassonar um gerð listarverks/minnisvarða á og við Eldfell.
Samningurinn fékkst afhentur en búið er að strika yfir hluta texta skv. beiðni viðsemjenda Vestmannaeyjabæjar með þeim rökstuðningi að um sé að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni. Þá vantar í gögnin viðbætur A og B, sem sýna hvernig listaverkið muni líta út.
Erfitt er að sjá að sveitarfélag geti staðið á því að veita umrædd gögn og má í því samhengi nefna að forsvarsmenn sama sveitarfélags hafa gagnrýnt umhverfis- og orkumálaráðuneytið fyrir að veita ekki gögn um rökstuðning HS Veitna til hækkana á gjaldskrá í Vestmannaeyjum. Þar heldur fyrirtækið uppi sömu rökfærslu um afhendingu og Vestmannaeyjabær tekur þátt í nú. Það mál er nú hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Fram kemur í svari Drífu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar til Eyjafrétta að það byggi á 9. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. 9. gr hljóðar svo:
9. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.
Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga [virka] 1) fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.
En ef það sem sýnilegt er í gögnunum er rýnt má meðal annars sjá að varnarþing þessa samnings milli Vestmannaeyjabæjar og Stúdíósins (sem er íslenskt einkahlutafélag) er í Berlín. Þá er bærinn – samkvæmt samningnum – búinn að skuldbinda sig til að greiða alla fjárhæðina án möguleika á riftun. M.ö.o. ekki er fyrir hendi riftunarheimild kjósi bærinn að byggja ekki upp göngustíginn og útsýnisstaðinn.
Hvað varðar upphæðirnar sem við fáum ekki að sjá svartar á hvítu má rifja upp að Páll Magnússon hafði áður sagt að kostnaðurinn vegna listamannsins yrði um 100 milljónir.
Margrét Rós Ingólfsdóttir hefur lýst efasemdum um verkefnið og hefur áhyggjur af kostnaðinum. Í nýlegri grein hennar varpar hún fram spurningum um kostnaðinn.
Meðal þess sem fram kom hjá bæjarfulltrúanum eru spurningar um hvað lagning göngustígsins kosti, með handriðum a.m.k. öðru megin? Hvað kostar gerð útsýnisstaðsins á Eldfellshrauni? Hvað kostar gerð bílastæðis, með rútustæði og góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða? Hvað kostar lýsing og lagning hennar? Örugglega væri hægt að telja meira til.
Þessum spurningum er öllum ósvarað en ljóst er að sú fullyrðing meirihluta E- og H- lista um að Vestmannaeyjabær myndi ekki leggja í verkefnið meira en 50 milljónir króna er einfaldlega röng en sú upphæð rennur öll til listamannsins, segir í niðurlagi greinar Margrétar. Undirritaður leitaði til hennar – við vinnslu þessarar greinar – um hvort hún hafi fengið svör við spurningum sínum eftir birtingu greinarinnar. Svar hennar var stutt: „Nei, engin.”
Við þessar spurningar má bæta þeirri spurningu hvernig það séu hagsmunir fyrirtækja að tilkynna ekki fjárhæðina, að ekki sé talað um þar sem hún kemur úr sameiginlegum sjóðum bæjarbúa? Hvar er gagnsæið?
Tryggvi Már Sæmundsson
Höfundur er ritstjóri Eyjafrétta.is og Eyjar.net.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst