Á síðasta fundi tók fræðsluráð Vestmannaeyja fyrir niðurstöðu starfshóps um starfsemi Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) sem leggur til að GRV verði framvegis tvær rekstrareiningar með sinn hvorum skólastjóranum í annars óbreyttri mynd. Hamarsskóli verði yngsta stigs skóli og Barnaskóli sem miðstigs- og efstastigs skóli, frá og með haustinu 2024.
„Lagt er til við fræðsluráð að myndaður verður nýr starfshópur skipaður skólastjóra og aðstoðarskólastjóra GRV, fræðslufulltrúa og framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs sem hafi það verkefni fram á vor að vinna nýtt skipurit fyrir tvo skóla og uppfæra starfslýsingar og verkferla í samræmi við það.
Jafnframt hafi starfshópurinn það hlutverk að fara yfir þær ógnanir sem fylgja umræddum breytingum og leggja til leiðir til að draga úr áhrifum þeirra. Með umræddum breytingum mun skapast rekstarlegt svigrúm til þess að styrkja starfsemi skólans enn frekar,“ segir í fundargerð.
Fræðsluráð samþykkti tillögur starfshópsins og telur mikilvægt að kynna málið skólaráði og fá umsögn þess og felur fræðslufulltrúa og framkvæmdastjóra sviðs að fylgja því eftir. Fræðsluráð leggur einnig til að skýrsla starfshópsins verður kynnt starfsmönnum skólans á upplýsingafundi með fulltrúum starfshópsins áður en hún verði birt.
Mynd: Tíundubekkingar sem útskrifuðust frá GRV sl. vor.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst