„Allir leikir sem við eigum eftir eru úrslitaleikir, allt leikir sem við getum unnið. Deildin hefur spilast þannig að þrjú sterkustu liðin, Víkingur, Valur og Breiðablik tróna á toppnum en önnur lið eru í sama slag og við. Með góðum úrslitum í leikjunum sem við eigum eftir eru möguleikar á að komast í topp sex í úrslitakeppninni sem tekur við þegar deildinni lýkur,“ segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV í Bestu deild karla. Eyjamenn mæta Stjörnunni á Hásteinsvelli klukkan 14.00 í dag, sannkallaður þjóðhátíðarleikur og má reikna með mikilli aðsókn.
ÍBV er í níunda sæti deildarinnar með 17 stig að loknum 17 umferðum og fimm umferðir eftir. Eru Eyjamenn á svipuðu róli og liðin sem þeir eiga eftir að mæta. Hermann er bjartsýnn þrátt fyrir 6:0 skellinn á móti Víkingi í síðasta leik. „Með góðum úrslitum eigum við möguleika á að komast í efri hluta úrslitakeppninnar. Þannig að við höfum að miklu að keppa. Það hefur verið góður gangur hjá okkur seinni umferðina. Ég er ánægður með spilamennskuna og taktinn í liðinu. Höfum skapað okkur tækifæri, unnið mikilvæga leiki og framistaðan ágæt.
Gott að fá smá spark
Það þýðir ekkert að svekkja sig á því þó við náum ekki stigum á móti Víkingum og Breiðabliki. Við verðum að vera raunsæ í því og til að ná árangri gegn toppliðunum þarf allt að smella. Og kannski ágætt að fá smá sparki í rassinn gegn Víkingum. Minnir okkur á að við þurfum að hafa fyrir hverju einasta stigi, hverjum einasta bolta og hverri einustu tæklingu. Það hefur fleytt okkur langt á síðustu tveimur árum.
Ég vil endurtaka það, að þrátt fyrir sex núll tapið var ég stoltur af framgöngu strákanna og hugarfarinu. Menn voru ekki að benda hver á annan, enginn hengdi haus og allir héldu áfram í 90 mínútur sem er ekkert sjálfsagt þegar þú ert að tapa þetta stórt,“ segir Hermann og viðurkenndi að ýmislegt hefði vissulega mátt betur fara í leiknum. „Við vitum að við getum lagað það og meðan hugarfarið er rétt er grunnurinn sterkur.“
Maður í manns stað
Eftir leikinn gegn Stjörnunni á morgun halda Nökkvi, Hermann, Sigurður Arnar og Eyþór Daði til náms í Bandaríkjunum. „Allt strákar sem hafa staðið sig vel en auk þess hafa fjórir leikmenn beinbrottnað á sex mánuðum sem er ekki alveg eðlilegt. Stór meiðsli og menn frá í langan tíma en það hefur alltaf komið maður í manns stað. Þrátt fyrir að missa öfluga leikmenn koma nýir inn. Við erum fullir af orku og klárir í baráttuna framundan. Það tekur tíma að slípa liðið saman en þegar takturinn er kominn náum við árangri,“ segir Hermann sem reiknar með fullum Hásteinsvelli á morgun og hann er bjartsýnn.
„Við höfum unnið þrjá mikilvæga leiki af síðustu fimm og erum sterkir á heimavelli. Við erum komnir með alvöru blóð á tennurnar á Hásteinsvelli og þá er erfitt að stoppa okkur. Það fleytir okkur langt og við vitum líka að við eigum mikið inni á útvelli. Það er frábært að fá leikinn á móti Stjörnunni á þjóðhátíðinni. Góð búbót fyrir félagið að eiga leik á þessum tíma, fullt af fólki, frábær stemning og spenningur og orkan mikil. Það verður ennþá meira gaman ef leikurinn fer vel, númer eitt, tvö og þrjú og þá sér hitt um sig sjálft,“ segir Hermann og næsti leikur er gegn FH eftir viku. „Það eru engin boð eða bönn en menn verða að sýna skynsemi í því sem þeir eru að gera á þessari frábæru hátíð. Og áfram ÍBV.“
Mynd Sigfús Gunnar.
Hermann lætur sitt ekki eftir liggja á hliðarlínunni:
Staðan
L | Mörk | Stig | |
Víkingur R. | 17 | 44:13 | 44 |
Valur | 17 | 42:14 | 38 |
Breiðablik | 17 | 35:23 | 34 |
FH | 16 | 31:33 | 24 |
Stjarnan | 17 | 32:22 | 22 |
KR | 17 | 17:26 | 22 |
KA | 16 | 21:30 | 21 |
HK | 17 | 28:33 | 20 |
ÍBV | 17 | 19:34 | 17 |
Fylkir | 17 | 26:37 | 16 |
Fram | 17 | 25:39 | 14 |
Keflavík | 17 | 17:33 | 10 |
ÍBV – Stjarnan, FH – ÍBV, ÍBV – Fylkir, HK – ÍBV og ÍBV – KR.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst