„Ég er búinn að taka þátt í Eyjatónleikunum nánast frá upphafi að undanskildum fyrstu tveim,“ segir Eyjamaðurinn Birgir Nielsen sem er einn besti trommuleikari landsins og á langan feril að baki. Var valinn Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2024.
Birgir nam við tónlistarskóla FÍH á árunum 1993 til 1995 og hefur frá árinu 1998 starfað sem slagverkskennari og frá 2018 verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Frá því að Birgir flutti til Eyja í upphafi árs 2010 hefur hann heldur betur látið til sín taka í tónlistarlífi okkar Eyjamanna. Er m.a. einn af stofnendum Hljómeyjarhátíðarinnar og verkefnastjóri hennar. Áherslan þar á bæ er lögð á að fá hæfileikaríkt fólk víða að af landinu og sérstaklega að koma ungu Eyjafólki á framfæri.
Og Birgir er í glæstum hópi tónlistarfólks sem kemur fram á Eyjatónleikunum í Hörpu þann 25. þ.m. Hljómsveitina skipa auk Birgis, Eiður Arnarson bassi, Jón Elvar Hafsteinsson gítar, Matthías Stefánsson gítar og fiðla, Kjartan Valdemarsson hljómborð og harmonikka, Sigurður Flosason saxafónn, flauta og slagverk, Ívar Guðmundsson trompet og svo eru bakraddir þau Kristján Gíslason og Alma Rut Kristjánsdóttir.
„Tilhlökkunin er alltaf jafn mikil og eftirvænting því um einstaka tónleika að ræða í mögnuðum Eldborgarsal sem er töfrum líkast,“ segir Birgir. „Stemningin er ólýsanleg í hvert skipti og ef þú hefur aldrei komið þá er tækifærið núna.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst