Breki VE lagði úr Hafnarfjarðarhöfn fyrr í dag áleiðis til Vestmannaeyja að afloknu haustralli Hafrannsóknastofnunar sem leigði skipið í verkefnið annað árið í röð. Veiðarfærum var skilað í land í Hafnarfirði og flestum í áhöfninni reyndar líka til að þeir kæmust á árshátíð VSV í kvöld. Fjórir urðu eftir um borð til að sigla Breka heim. Þeir missa af árshátíðinni í þetta sinn.
Rallið hófst 30. september og endaði sem sagt í dag, 528 klukkustundum og 3.300 sjómílum síðar. Magnús Ríkarðsson skipstjóri hefur samlíkingar á takteinum til að fólk átti sig betur á yfirferð togarans undanfarnar vikur.
„Við sigldum þvers og kruss, fram og til baka, út og suður, í fiskveiðilögsögunni hringinn í kringum landið. Þessar 3.300 sjómílur svara til siglingar frá Vestmannaeyjum til Miami á Flórída eða frá Eyjum til Tenerife og aftur til baka!
Við hefðum svo sem þegið ögn af sól og blíðu sem gjarnan ríkir á Tenerife og í Flórída en vorum ekki sólarmegin í lífinu í þetta sinn heldur í leiðindaveðri stóran hluta tímans.
Við toguðum á 155 fyrirfram ákveðnum stöðvum á djúpslóð í lögsögunni, stundum á hátt í þúsund metra dýpi sem svarar til meira en þrefaldrar hæðar Heimakletts okkar Eyjamanna.
Aflinn var samtals um 50 tonn sem landað var á Eskifirði, Dalvík og í Hafnarfirði.“
Klara Björg Jakobsdóttir líffræðingur er verkefnisstjóri haustrallsins og leiðangursstjóri um borð í Breka fyrri hluta rallsins. Hlynur Pétursson líffræðingur var leiðangursstjóri í síðari hlutanum.
Klara Björg fer afskaplega ánægð með samstarf Hafsóknarstofnunar og Vinnslustöðvarinnar og hrósar Breka og áhöfninni í hástert.
„Breki er frábært skip og áhöfnin sömuleiðis. Magnús skipstjóri er hundrað prósenta maður, vandvirkur, nákvæmur og leggur sig fram um að skila verkefninu eins vel og framast er unnt. Fyrir okkur starfsmenn Hafró er gulls í gildi að vinna með fólki sem er umhugað um að skila góðu verki.
Við fórum eins að nú og í fyrra, slepptum stöðvum þar sem dýpi er yfir þúsund metra og tökum þær með rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni. Árni er eina skipið í íslenska flotanum sem ræður til dæmis við að toga á allt að 1.300 metra dýpi vestur af landinu til að afla upplýsinga um djúpsjávartegundir, einkum grálúðu og karfa.
Breki ræður við að toga á upp undir þúsund metra dýpi og með því að nota Árna Friðriksson á dýpri stöðvum blessast rallið í heildina tekið.“