Breki VE veiðir á við tvo með þriðjungi minni olíu

Nýr ísfiskstogari Vinnslustöðvarinnar, Breki, gerir gott betur en að uppfylla væntingar útgerðar og áhafnar til skipsins í fyrstu veiðiferðunum eftir heimkomuna frá Kína.

Breki afkastar á við báða togarana sem hann leysti af hólmi hjá VSV en brennir þriðjungi minni olíu en hvor togaranna um sig hefði gert við veiðarnar og jafnvel gott betur. Og það þó Breki dragi tvö troll í einu.

„Þetta lofar virkilega góðu og olíueyðslan er minni en ég bjóst við,“ segir Magnús Ríkarðsson skipstjóri. Hann stóð vaktina í brúnni í dag og stýrði fleyi sínu af miðum fyrir vestan land áleiðis til heimahafnar í Eyjum með hátt í fullfermi, um 400 kör af þorski, karfa og ufsa.

Orkunýting & olíusparnaður

Skrúfurnar á systurskipunum Breka og Páli Pálssyni ÍS eru þær stærstu í íslenska fiskiskipaflotanum, hannaðar af Sævari Birgissyni í Skipasýn. Í skrúfustærðinni liggur olíuhundurinn grafinn.

Á hönnunarskeiði Breka og Páls var talað um að með því að stækka skrúfur þeirra og hægja á þeim mætti fá mun meira afl með mun minni orku, jafnvel svo að olíunotkunin minnkaði um allt að 40%.

„Reynslan í fyrstu veiðiferðum Breka staðfestir að forsögn skrúfuhönnuðarins stenst fullkomlega. Orkunýtingin er jafnvel enn betri en við þorðum að vona,“ segir Guðni I. Guðnason, umsjónarmaður skiparekstrar og fasteigna Vinnslustöðvarinnar.

Frétt birtist á vef Vinnslustöðvarinnar.

Nýjustu fréttir

Glacier Guys með nýtt föstudagslag
„Úttroðinn af loðnu”
Fréttapýramídar afhentir fyrir nýliðið ár
Karlar hvattir til að sýna handverk
Guðbrandur Einarsson segir af sér þingmennsku
Mikill áhugi á Eyjagöngum
Saltfisksala hjá meistaraflokkum ÍBV
ÍBV með mikilvægan sigur á ÍR
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.