„Fyrir okkur er þetta ótrúlegt svæði að koma og vera og vinna, því hér erum við í svo miklum friði. Við erum bara í stúdíóinu og svo er allt innan seilingar í bænum” segir listamaðurinn Jón Óskar um Vestmannaeyjar í samtali við Eyjafréttir.
Hjónin Jón Óskar og Hulda Hákon hafa verið með listasýningu í Eldheimum í vikunni í tilefni að 50 ár séu liðin frá goslokum. Sýningin er opin til klukkan fimm í dag.
„Þetta er svona allavegana hjá okkur. Til dæmis þá sýnir hún Hulda bronsskúlptúra sem mynda nokkurs konar bál. Strangt til tekið þá hefur það ekkert um eyjagosið að gera eða þannig. Hulda hefur gert stór útiverk bæði í Noregi og Finnlandi sem samanstanda af svona eldum. Þetta er kannski meira eins og varðeldar, áramótabál eða því líkt. Það er ekkert sjálfsat að móta eld því hann er svo lifandi og kvikur” segir Jón en verkið samanstendur af 27 logum sem er raðað hlið við hlið.
Hundurinn með sitt verk
„Á sýningunni er líka verk eftir Heiðu Berlínu sem er tíkin okkar en hún dó fyrir nokkrum dögum. Hún var búin að fara um alla eyjun og það sem er skrýtið er að alltaf þegar við fórum upp á Nýja hraunið þá var hún alveg óð í að grafa holur. Ég veit ekki hvort það hafi verið út af hitanum í jörðinni eða hvort hún heyrði hljóð eða eitthvað” segir Jón sem fyrir nokkrum árum tók afsteypur af holunum og bjó til verk úr þeim. „Út úr því komu mjög fallegir baukar og maður sér alveg klórförin eftir hana. Þetta eru svona eins og lítil fjöll og við ákváðum að sýna eitt þeirra á sýningunni.”
„Síðan þegar það kemur að mér þá er ég sjö málverk. Tvö þeirra eru frekar abstrakt en síðan eru hin fimm um svarta svaninn. Svarti svanurinn er svona myndlíking sem lýsir atburðum sem koma á óvart. Eitthvað sem þú átt ekki von, hefur mikil áhrif eða er óviðeigandi. Það er engin stór yfirlýsing í þessu hjá mér og ég er meira svona að skemmta mér við myndirnar” segir Jón.
Þúsund kall
„Ég elska alla Eyjamenn og þeir hafa reynst mér alveg ótrúlega vel. Bara sem dæmi þá þurftum við að flytja svaka mikinn gám fullan af drasli þegar við keyptum hús hérna. Þá kom hérna maður á einhverjum átján hjóla trukk og hjálpaði okkur með flutningana sem tóku dágóðan tíma. Ég veit að svona stórir trukkar kosta heilmikið á tímann þegar þú leigir þá en þegar ég spurði hann hvað ég skuldaði honum þá spurði hann mig hvort ég væri ekki sáttur við þúsund kall. Mér fannst þetta svo flott móttaka og ég hef fengið þetta oft í Eyjum sem er bara alveg frábært.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst