Sjávarútvegur hefur lengi verið burðarás íslensks efnahagslífs og samfélags. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins, stuðla að nýsköpun og efla samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðavettvangi.
Íslenskur sjávarútvegur er leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Hann er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg, sem krefst þess að gjaldheimtu í greininni sé stillt í hóf og dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði.
Við viljum skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið, þar sem stöðugleiki, hófleg skattheimta og hagkvæm nýting auðlinda landsins eru lykilatriði. Þetta stuðlar að fjárfestingum og eðlilegri samkeppni, sem er forsenda framfara og velferðar, ekki bara í Suðurkjördæmi heldur á landinu öllu.
Íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi hafa lagt áherslu á nýsköpun sem hefur leitt til betri nýtingar auðlinda hafsins og lagt grunn að mörgum af öflugustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins. Nýjar vörur eru unnar úr sjávarfangi, eins og snyrtivörur, bætiefni og plástrar, sem sýnir hvernig hægt er að nýta auðlindir hafsins með hagkvæmum og sjálfbærum hætti.
Sjálfbærni í sjávarútvegi er lykilatriði. Íslendingar hafa tekið þá stefnu að nýta auðlindir hafsins á þann hátt að þær haldist til framtíðar. Vísindaleg ráðgjöf er ein meginstoð íslenskrar fiskveiðistjórnunar, sem tryggir ábyrgar fiskveiðar og sjálfbæra nýtingu fiskistofna.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs, sem byggir á núgildandi aflamarkskerfi, svo að greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskistofna.
Með áframhaldandi nýsköpun og ábyrgri stjórnun getur íslenskur sjávarútvegur haldið áfram að vera ein af stoðum íslensks efnahagslífs og tryggt hagsæld fyrir komandi kynslóðir. Það er okkur öllum til hagsbóta.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur með íslenskum sjávarútvegi. Meiri framfarir fyrir okkur öll!
Gísli Stefánsson
Höfundur skipar 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst