Flugelda sala Björgunarfélags Vestmannaeyja opnar á sínum stað við Faxastíg 38 í dag verður opin alla daga til áramóta frá 10:00 til 21:00 og 9:00 til 16:00 á gamlársdag. Faxastígurinn verður þó ekki eini sölustaðurinn þetta árið því einnig hefur verið opnuð vefverslun með flugelda á slóðinni eyjar.flugeldar.is. Netsalan hófst sunnudaginn 20. desember en vörur verða afhentar í vikunni. Adólf Þórsson sem haft hefur veg og vanda af flugeldasölunni hjá Björgunarfélaginu undanfarin ár segir það gert til að auka þjónustu við bæjarbúa. „Við vonumst til að bæjarbúar taki þessari nýjung hjá okkur vel. Vöruúrval í vefverslun er nánast það sama og í búðunum hjá okkur, en nú verða búðir á báðum hæðum og er það gert til að bregðast við fjöldatakmörkunum vegna Covid.“ Adólf hvetur fólk til að versla tímalega til að forðast biðraðir. Hann vildi einni koma því á framfæri að vegna sóttvarna þá verður takmarkað hve margir viðskiptavinir geta verið á sölustað. Grímuskylda er á sölustað, og fólk beðið um að sinna persónulegum sóttvörnum. Aðspurður um þær nýjungar sem verði á boðstólum í verslun segir hann að nokkur aukning verði í minni tertum og búið sé að bæta enn frekar í tegundir af fjölskyldupökkum.
Tökum bjartsýn á móti 2021
Þegar talið barst að því hvort ekki væri ærið tilefni til að sprengja þetta árið var Addi ekki lengi að svara. „Ef það er einhver ástæða til að sprengja mikið á áramótum, þá er það sannarlega eftir þetta skrýtna og furðulega ár. Tökum bjartsýn á móti 2021 og gerum okkar besta að það verði árið sem vert er að muna. Það er ekki verra að styrkja gott málefni með því að versla flugelda hjá Björgunarfélagi Vestmannaeyja. Félagar í Björgunarfélagi Vestmannaeyja óskar bæjarbúum og velunnurum Gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir stuðninginn á liðnum árum,“ sagði Addi hress að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst