Það var bæði eftirvænting og spenna sem fyllti hugann á leið á tónleika, Júníusar Meyvants, eyjapeyjans Unnars Gísla Sigurmundssonar í Hörpunni, föstudaginn 10. mars sl. Tækist drengnum að fylla risastóran sal Hörpunnar og ná til gesta með tónlist sinni? Hann stóð undir væntingum, Harpan var nánast full og gífurleg stemming frá fyrsta tóni til hins síðasta. Frábær hljómsveit og Júníus brást ekki og útkoman einstakir tónleikar sem lifa í minningunni á meðan einhver týra er í kollinum.
Það var sterk upplifun að fá lögin sem hafa heillað, Signals, Color Decay og Ain’t gonna let it Down beint í æð og hafa glatt milljónir á síðustu árum. Um var að ræða útgáfutónleika plötunnar Guru sem kom út í október. Eru þetta metnaðarfyllstu og stærstu tónleikar sem Júníus hefur haldið hingað til. Fór hann yfir allan ferilinn í bland við lög af nýju plötunni. Júníus hefur gefið út þrjár breiðskífur og tvær stuttskífur. Vinsælasta lag hans á Spotify er Signals sem rúmlega 12 milljónir hafa hlustað á og mánaðarlega hlusta rúmlega 320 þúsund manns á lögin hans. Hans fyrsta lag, Color Decay sem kom út árið 2014 náði heimsathygli og sýndi hvers vænta mátti.
Júníus fékk góða gesti til liðs við sig, KK og Bríeti sem tóku sitt hvort lagið með Júníusi og var útkoman frábær. Gestir voru vel með á nótunum og Júníus er ekki bara einstakur tónlistarmaður. Hann er líka sögumaður af Guðs náð sem kryddaði kvöldið. Hljómsveitina skipuðu tónlistarmenn í fremstu röð og sönghópurinn Kyrja átti sinn þátt í að gera kvöldið ógleymanlegt. Gestir voru vel með á nótunum frá fyrsta tóni til hins síðasta. Fögnuðu hverju lagi og heimtuðu aukalög.
Tónleikarnir stóðu hátt í þrjá tíma og aldrei var slegið af og allir með bros á vör að þeim loknum. Frostið beit þegar út var komið en það skipti engu því Eyjahjartað var að springa úr stolti og færði yl til allra taugaenda. Já, okkar maður, Unnar Gísli stóð fyrir sínu og vel það sem er viðurkenning fyrir Vestmannaeyjar. Okkar maður að standa sig á heimsvísu.
HLJÓMSVEIT: Júníus Meyvant – Söngur, hljómborð, gítar, Kjartan Hákonarson – Trompet, Kristófer Rodriques – Trommur, Óskar Guðjónsson – Saxófónn, Rubin Pollock – Gítar, Samúel Jón Samúelsson – Básúna, Tómas Jónsson – Orgel og Örn Eldjárn – Bassi.
Ómar Garðarsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst