Samgöngur milli lands og Eyja bar á góma í störfum þingsins á Alþingi í dag. Það var Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins sem tók þar til máls og gerði að umtalsefni stöðu samgangna á milli lands og Eyja.
Karl Gauti sagði þar að samgöngur við Vestmannaeyjar hafi komið enn og aftur til umræðu um síðustu helgi þegar á annan tug Vestmannaeyinga komst ekki á mikilvægan fund í höfuðborginni þar sem hvert atkvæði reyndist síðan skipta máli. „Skertar samgöngur eru ekki ný saga fyrir Vestmannaeyinga og að undanförnu hefur hvert stórviðrið rekið annað, t.d. fór ölduhæð við Surt yfir 10 metra um síðustu helgi. Landeyjahöfn hefur verið úti vikum saman í vetur og oft hefur þurft að fella niður ferðir til Þorlákshafnar. Nú er staðan sú að verið er að ferja bifreiðar þeirra sem þurftu að skilja bíla sína eftir um helgina með tilheyrandi umstangi og óþægindum fyrir gesti og íbúa eyjanna.
Ekki er útlit fyrir að unnt verði að opna Landeyjahöfn á næstunni þar sem við höfnina hafa myndast grynningar á siglingaleiðinni. Um nokkurt skeið hefur ekki gefist veður til dýpkunar og óvíst um hvenær tekst að hefja dýpkun. Stjórnvöld hafa styrkt áætlunarflug fjórum sinnum í viku yfir þá mánuði sem mestar líkur eru á lokun Landeyjahafnar og er það vel, en ljóst er að bæta þarf í flug meðan Landeyjahöfn er ekki að sinna hlutverki sínu, fjölga ferðum og lengja tímann yfir veturinn. Í öllu þessu felst mikið óöryggi fyrir íbúa, ekki síst þá sem þurfa að leita sér lækninga, fara erlendis eða sinna öðrum brýnum erindum.
Samgöngumál landsbyggðarinnar eru öryggismál fyrir íbúana. Á það þarf reglulega að minna og hvetja stjórnvöld að vera stöðugt að bæta samgöngur í okkar harðbýla landi. Það sem er brýnast í samgöngumálum Vestmannaeyinga er auðvitað að klára Landeyjahöfn svo að hún sinni hlutverki sínu. Hverjar sem úrbæturnar verða, lengja annan garðinn, nú eða báða, eða fara í aðrar framkvæmdir, er ekki lengur við það unað að Landeyjahöfn, sem er að verða 15 ára, nýtist ekki eins og vonir stóðu til,” sagði Karl Gauti á þingfundi í dag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst