Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson kemur í góðu formi inn í íslenska landsliðið. Liðið hefur leik á Evrópumóti karla í handbolta í Svíþjóð í næstu viku. Elliði Snær hefur spilað 62 landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur verið í lykilhlutverki landsliðsins undanfarin ár. Elliði framlengdi nýlega samning sinn við félagsliðið sitt, Gummersbach og mun leika með liðinu til ársins 2029.
Elliði segir í samtali við Eyjafréttir að hann sé mjög ánægður með framlenginguna í Gummersbach. ,,Við erum með lið sem hefur fullt af hæfileikum og stefnir mjög hátt. Það er ástæðan fyrir að ég vill vera þar áfram. Mig hlakkar til að taka þátt í því.”
Elliði hefur sýnt góða frammistöðu og átti til að mynda frábæran leik á móti Hamburg fyrir tveimur vikur. Þar skoraði hann sjö mörk úr níu skotum og var markahæstur í leiknum.
,,Já, það hefur gengið ágætlega hjá mér persónulega og liðinu líka. Auðvitað hjálpar það að koma fullur sjálfstrausts inn í þetta og ofan á það hef ég mikla trú á liðinu, sem skiptir líka miklu máli.”
Ísland spilar í F-riðli á EM sem er leikinn í Kristianstad á Skáni í Svíþjóð. Ísland er í riðli með Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi. Áður en EM hefst mun Ísland leika á æfingamóti í Frakklandi um helgina. Undirbúningurinn hefur gengið vel fyrir EM að hans sögn. ,,Liðið er að slípast vel saman og þeir eru meira samstilltir með hverjum deginum.”
Aðspurður um væntingar fyrir mótið hjá honum sjálfum og liðinu segir hann að þeir fari bjartsýnir inn í mótið en á sama tíma einbeita þeir sér bara að riðlinum til að byrja með og sjá svo hvað gerist. Að lokum segir Elliði að stemningin í hópnum hafi sjaldan verið betri.
Leikir Íslands á EM 2026
Fös. 16. janúar kl. 17:00 Ísland – Ítalía
Sun. 18. janúar kl. 17:00 Ísland – Pólland
Þri. 20. janúar kl. 19:30 Ísland – Ungverjaland



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst