Í aðdraganda jóla höfum við rætt við nokkra íbúa Vestmannaeyja um hvernig þeir undirbúa hátíðarnar. Við ræddum við Hafdísi Snorradóttur að þessu sinni og deildi hún með okkur sínum uppáhalds jólahefðum og minningum.
Fjölskylda? Ég er gift Friðriki Þór Steindórssyni og saman eigum við þrjú börn, þau Rebekku Rut, Sindra Þór og Rakel Rut. Tengdabörnin eru Matthías, Zofía og Gunnar Hrafn og svo er það barnabarnið okkar hann Nóel Þór sem er 1 árs.
Hvernig leggjast jólin í þig? Ég elska jólin og hlakka alltaf til þeirra og það er engin breyting á því í ár.
Fer mikill undirbúningur í jólin hjá þér? Ég skreyti frekar mikið og snemma, ég geng um húsið alla aðventuna og færi til hluti og breyti og laga. Svo er það baksturinn og að versla gjafir, við erum líka dugleg að fara á tónleika, jólahlaðborð og á ýmsa viðburði á aðventunni.
Ertu með jólahefð? Hefðirnar eru ekki margar og eru breytilegar ár frá ári. Við höfum verið með pakkaskipti og pakkaleiki, boðið í smørrebrød og svo er auðvitað spilað og púslað. Á aðfangadag erum við saman fjölskyldan ásamt mömmu og ömmu. Við förum í kirkjugarðinn með bræðrum mínum og fjölskyldum þeirra og kveikjum á kertum hjá látnum vinum og ættingjum. Maturinn er alltaf sá sami. Lúða í forrétt, í aðalrétt er hamborgarhryggur og kalkúnabringa og svo ananasfrómas í eftirrétt. Á jóladag er svo kaffiboð hjá Hafþóri bróður og Dagrúnu og svo hangikjöt hjá Óla bróður og Þórunni á jóladagskvöld. Áramótin eru haldin heima hjá okkur og þá erum við systkinin saman ásamt afkomendum og það er geggjað, og partý fram á nótt með vinum okkar og fjölskyldu. Alltaf jafn gaman.
Hvert er þitt uppáhalds jólalag? Mitt uppáhaldsjólalag er að sjálfsögðu ,,Ég hlakka svo til“ því ég er mjög spennt og hlakka alltaf svo til jólanna.
Hvað stendur upp úr á jólunum? Jólin eru tími fjölskyldunnar og það finnst mér það besta við jólin, og svo auðvitað að gefa gjafir og fá þær. Það verður frábært að fylgjast með Nóel Þór þó hann sé enn lítill og vitlaus. Ég vil óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og munum að njóta en ekki þjóta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst