„Um daginn kom séra Guðmundur Örn til mín og spurði hvort ég væri til í að flytja predikun eða hugvekju á Nýársdag í Landakirkju. Eftir mínútu umhugsun var málið komið í ferli og við félagarnir búnir að stilla upp messunni. Fyrir þá sem sváfu yfir sig læt ég hugvekjuna fylgja hér að neðan og þakka um leið séra Guðmundi fyrir að opna á þennan glugga fyrir mig að fá að láta ljós mitt skína í predikunarstólnum í fyrsta sinn,“ segir Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins og oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Vestmannnaeyja á Fésbókarsíðu sinni í dag.
Hugveikja Eyþórs:
Góðan daginn kæru kirkjugestir. Gleðilegt nýtt ár!
Það er eitthvað sérstakt við að byrja nýtt ár, að fá tækifæri til að endurskoða fortíðina og horfa fram á veginn með nýjum vonum og væntingum. Í dag vil ég tala um hvernig lífið getur tekið óvænta stefnu við ómerkilegt atvik sem gerðist í lífi mínu og hvað það hefur oft komið upp í huga minn hvernig líf mitt og fjölskyldunnar hefði þróast ef þetta ómerkilega atvik hefði ekki átt sér stað.
Við höfum eflaust öll upplifað ákveðin augnablik sem lífið breyttist á óvæntan hátt. Stundum ómeðvitað og stundum meðvitað.
Leit að íbúð í Lübeck
Ég vil deila með ykkur sögu sem sýnir hvernig lítið atvik geta leitt til stórra breytinga. Mér hefur oft verið hugsað til atviks eða öllu heldur atburðarrásar sem gerðist fyrir mörgum árum. Þessi atburðarrás varð til þess að ákveðin niðurstaða varð á því hvort ég gæti stundað nám í Þýskalandi eða ekki.
Til að skýra þetta nánar þá lá það fyrir sumarið 1991 að ég myndi stefna á nám í rafmagnstæknifræði í Lübeck í Þýskalandi. Það sem réði þeirri ákvörðun minni var að tveir af mínum góðu vinum höfðu menntað sig í Þýskalandi og líkaði vel. Einnig var möguleiki fyrir mig að vinna hjá Baader fyrirtækinu sem þekkt er á Íslandi fyrir framleiðslu á fiskvinnsluvélum. Þar fékk ég vinnu í 5 mánuði áður en ég myndi hefja nám í Tækniháskólanum í Lübeck.
Í byrjun var planið þannig hjá fjölskyldunni að ég færi fyrst út og myndi byrja að vinna og fá bráðabirgðahúsnæði með hjálp Baader. Síðan færi ég strax í það að leita að leiguhúsnæði. Þegar því væri lokið kæmi frúin út með börnin okkar tvö. Sjálft námið átti ekki að byrja fyrr en í febrúar 1992 og taldi ég mig hafa nægan tíma til að finna húsnæði.
Þegar ég kom til Þýskalands í lok ágúst 1991 var það fyrsta sem ég las í dagblaðinu í Lübeck að það vantaði 5400 íbúðir á svæðið. Eftirspurnin eftir húsnæði varð gríðarleg eftir sameiningu V-Þýskalands við A-Þýskaland árið 1989 og var mikill straumur fólks yfir til vesturs.
Ég lét þetta ekki á mig fá og byrjaði með hjálp Íslendings sem bjó í Lübeck að skoða sunnudagsblaðið en það voru einu dagarnir sem íbúðir voru að einhverju magni auglýstar til leigu. Þetta er um miðjan september sem ég er að byrja í þessari leit, og er skemmst frá því að segja að í hverri viku skoðaði ég 2 til 3 íbúðir og lenti í því að vera einn af fáum sem kom til greina sem leigjandi, en alltaf kom á endanum í ljós að einhver annar fékk íbúðina með tilheyrandi afsökunum að þetta var erfitt val og svo framvegis.
Þegar svona hafði gengið í 2 mánuði, eða fram í miðjan nóvember var ég nú farin að efast um að ég hafi verið að gera rétt með þessari Þýskalandsför minni. Skólafélagar mínir sem fóru til Danmerkur um haustið voru allir komnir með fínar íbúðir og búið að gera allt klárt gagnvart félagslega kerfinu. Heyrði ekkert annað en hve allt væri dásamlegt þar. Ég í einhverri tómri þvælu þarna í Lübeck þar sem leiguverð væri á uppleið eða nánast tvöfaldast á síðustu 2 árum.
Ég að leita að íbúð með konu og börn heima á Íslandi í algjörri óvissu. Á þessum tímapunkti var ég byrjaður að hugsa það hvort ég þyrfti ekki að gefa frá mér þennan draum að mennta mig í Þýskalandi og undirbúa byrjun á námi í Danmörku strax eftir áramótin.
Örlagadagurinn
Kemur þá að þessum örlagaríka degi um miðjan nóvember. Þetta var laugardagur og var frí hjá mér í vinnunni hjá Baader. Húsnæðið sem ég var með á vegum Baader var í miðborg Lübeck í svokölluðu „Ganghaus“. Lítið, um 55 m2 þriggja hæða hús og samfast við raðhúsarlengju með 10 svipuðum húsum. Ganghaus eru þessi hús sem gengið er inní gegnum göng frá götunni og inní bakgarð þar sem þessi gangur er fyrir öll þessi hús. Ég var semsagt í fyrsta húsinu á þessum gangi.
Þessi morgun var álíka og allur annar frítími, þ.e. setið yfir þýskri málfræði og kassettukúrsum, því metnaðurinn var mikill í því að ná þýskuprófi sem ég þurfti að taka til að komast inní skólann. Um hádegisbilið ákvað ég að fríska eitthvað uppá kallinn og henda mér í sturtu og þegar því var lokið þá er ég þarna í herberginu á annari hæðinni.
Af einhverri ástæðu datt mér í hug að opna gluggann á herberginu og lofta út. Þegar ég opna gluggann sem sneri út á ganginn meðfram húsunum ganga fram hjá húsinu 2 gamlar konur. Ég lít á þær og bíð góðan daginn. Þær buðu góðan daginn líka og byrjaði eitthvað spjall út frá því.
Þær gömlu redduðu málunum
Ég hafði aldrei séð þessar konur þarna í nágrenninu og kom það í ljós að þær voru að koma til Lübeck bara þennan laugardag til að kíkja á íbúð innar í ganginum sem vinur þeirra átti, næst innst í þessum gangi. Þetta var nýuppgert hús sem hafði um 400 ára gamla sögu og var friðað eins og flest öll hús í miðborginni í Lübeck.
Í spjalli okkar sagði ég þeim frá því að ég væri búinn að vera að leita að íbúð síðan í september. Þeim fannst þetta alveg ómöguleg staða og sögðust ætla að athuga hvort ég gæti fengið þessa íbúð ef ég hefði áhuga á.
Að opna glugga á réttum tíma
Þær gáfu mér upp símanúmer hjá sér og átti ég að hringja í þær næsta dag og það er skemmst frá því að segja að ég fékk þessa íbúð leigða um 2 vikum síðar. Konan og börnin gátu því undirbúið brottför frá Íslandi og haldið til Þýskalands. Þar bjuggum við síðan í 4 ár og líkaði ákaflega vel við land og þjóð.
Það sem ég hef oft velt fyrir mér er þessi laugardagsmorgun. Tímasetningin að hafa stigið uppúr þýskuæfingum, farið í sturtu, haft mig sæmilega til, opnað gluggann á nákvæmlega sama tíma og 2 gamlar konur ganga framhjá húsinu sem voru með lausn á íbúðarvanda mínum.
Ég hef oft spurt mig hvernig háskólanám mitt, eða öllu heldur líf mitt og fjölskyldu minnar hefði þróast ef ég hefði ekki opnað gluggann þennan morguninn?
Þessi saga minnir mig oft á að lífið er fullt af óvæntum tækifærum þó útlitið sé ekki alltaf bjart. Það er mikilvægt að muna að jafnvel þegar plönin eru ekki að ganga upp er ekkert öruggt að það klikki.
Að vera opinn fyrir því óvænta
Ára opin fyrir því óvænta nýju ári skulum við því leggja áherslu á að vera opin fyrir óvæntum atvikum og taka á móti þeim með jákvæðni. Við skulum leyfa okkur að vera forvitin og hugrökk, að taka skrefin sem leiða okkur á nýjar slóðir. Því oft eru það litlu atvikin sem leiða til stærstu breytinganna í lífi okkar.
Við getum ekki alltaf stjórnað því sem gerist, en við getum stjórnað því hvernig við bregðumst við. Með jákvæðni og opnum huga getum við nýtt okkur hvert tækifæri sem lífið býður upp á og gert nýja árið að okkar besta ári hingað til.
Ég vil enda hugvekjuna á sálmi sem ætti að líta á sem hvatningu inní nýja árið:
„Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrar þraut.
Í sannleik, hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.
Gleðilegt nýtt ár og megi það fyllast af gleði og óvæntum tækifærum!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst