Árleg afhending á Fréttapýramída Eyjafrétta fór fram í Eldheimum í hádeginu í dag. Athöfnin var að nokkur leyti helguð 50 ára afmælisári Eyjafrétta.
Fréttapýramídinn fyrir framtak í menningarmálum:
Hjónin Bjarni Ólafur Guðmundsson og Guðrún Mary Ólafsdóttir standa fyrir Eyjatónleikum í Hörpu sem seinna í þessum mánuði verða haldnir í þrettánda sinn. Upphafið voru tónleikar 2011 á 100 ára afmælisdegi Oddgeirs Kristjánssonar. Seinna var Ása í Bæ gerð skil á aldarafmæli hans. Þeir félagar lögðu grunninn að þeim mikla bálki sem Eyjalögin eru. Það hefur aldrei verið slegið af í vali á listafólki. Tónlistin er í fyrirrúmi en tónleikarnir eru líka eitt stærsta ætta- og vinamót landsins. Um leið halda Bjarni Ólafur og Guðrún Mary á lofti þeim mikla menningararfi sem Eyjalögin eru. Fyrir það fá þau Fréttapýramídann 2023.
Fréttapýramídinn fyrir framlag til félags- og menningarmála:
Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur víða komið við þegar kemur að félags- og menningarmálum í Vestmannaeyjum og um land allt. Á m.a. hlut í prent- og útgáfusögu Eyjanna sem einn af stofnendum Eyjaprents sem byrjaði útgáfu Frétta, seinna Eyjafrétta í júní 1974. Arnar hefur komið að sögulegum viðburðum og verið í forystu ýmissa félaga, m.a. Skákfélags Vestmannaeyja. Arnar hlýtur Fréttapýramídann 2023 fyrir framlag sitt til félagsmála, menningarmála og atvinnulífs í Vestmannaeyjum og á landsvísu um áratuga skeið.
Fréttapýramídinn fyrir framlag til íþróttamála:
Erlingur Birgir Richardsson, Erlingur hefur ásamt góðu fólki verið ein aðaldriffjöðurin í uppbyggingu handboltans í Vestmannaeyjum síðustu ár. Erlingur hefur starfað nær óslitið við þjálfun frá 15 ára aldri, lengst af í Vestmannaeyjum en hann hefur þó reglulega brugðið sér af bæ til þess að bera út hróður íslensks handbolta víða um heim. Erlingur hefur auk þess frá unga aldri sinnt ýmsum störfum fyrir íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum. Undir stjórn Erlings tryggði karlaliði ÍBV sér Íslandsmeistara titil í handbolta síðastliðið vor. Erlingur gat ekki verið viðstaddur við afhendinguna í dag en hann er um þessar mundir að undirbúa landslið Saudi-Arabíu fyrir komandi Asíuleika í handbolta sem hefjast í næstu viku.
Leikfélag Vestmannaeyja hlaut viðurkenningu fyrir uppsetning félagsins á Rocky Horror á fjölum Þjóðleihússins. Leikfélagið réðist í það stór verkefni snemma síðasta árs að setja upp hið þekkta verk The Rocky Horror Show í leikstjórn Árna Grétars Jóhannssonar. Aðsókn var góð og hlotnaðist félaginu sá heiður að fá að sýna Rocky Horror á stóra sviði Þjóðleikhússins í júní.
Uppselt var og viðtökur stórkostlegar sem er mikil viðurkenning fyrir starf Leikfélagsins sem stendur á gömlum merg. Fyrir það viljum við veita félaginu smá viðurkenningarvott.
Nánar verður fjallað um afhendinguna og verðlaunahafa í næsta tölublaði Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst