Elliði Vignisson, bæjarstjóri færði rök fyrir því á samstöðufundi á Selfossi í dag, að landsbyggðin standi undir heilbrigðisþjónustu höfuðborgarsvæðisins. Elliði sagði að útflutningstekjur þjóðarinnar hefðu verið 497 milljarðar á síðasta ári. 332 urðu til á landsbyggðinni en 161 á höfuðborgarsvæðinu. „Í Reykjavík, þar sem alþingi starfar, þar sem öll ráðuneytin eru, þar sem allir stjórnmálaflokkar eru með skrifstofur sínar, er því haldið fram að nú sé of dýrt að halda úti heilbrigðisþjónustu fyrir okkur á landsbyggðinni. Staðreyndin er sú að við hér á landsbyggðinni erum áfram til í að greiða þetta fyrir borgina sem okkur þykir vænt um; við erum hinsvegar ekki til í að leggja þetta niður hjá okkur,“ sagði Elliði í ræðu sinni sem má lesa í heild sinni hér að neðan.