Kostnaður ríkissjóðs, vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu í tengslum við kröfur sem ríkið gerði um að eyjar og sker við landið yrðu þjóðlendur, nemur rúmum 96 milljónum króna á þriggja ára tímabili sem tekur til áranna 2023, 2024 og 2025. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en þessari endaleysu, sem Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra lagði upp með á síðasta ári var einkum beint að Vestmannaeyjum. Í pakka ráðherrans voru allar úteyjar Vestmannaeyja og stærsti hluti Heimaeyjar.
Málinu var haldið áfram eftir að Sigurður Ingi tyllti niður fæti í ráðunneytinu en búið að sníða af sker, hólma og eyjar sem voru langt inni í landi og stærri sneið af Heimaey skilin eftir til að friða Eyjamenn.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar alþingismanns Miðflokksins um þann kostnað sem fallið hefur á ríkið við þessa kröfugerð sem og hverjir hefðu fengið greitt fyrir viðvikið. Fram kemur í svarinu að stærsti hluti upphæðarinnar hafi runnið til Juris lögmannsstofu, rúm 91 milljón króna, en ríflega 5 milljónir voru greiddar teiknistofunni Landform vegna kortavinnu.
Í fyrirspurninni var og beðið um svör um hvernig umræddur kostnaður skiptist, annars vegar kostnaður við upphaflega kröfugerð og hins vegar kostnaður við endurskoðaðar kröfur.
Ásældust hólma í Borgarfirði
„Svo sem fram hefur komið vakti upprunaleg kröfugerð ríkisins nokkra undrun ýmissa þar sem m.a. var gerð krafa um að eyjar sem sannarlega voru í einkaeigu yrðu gerðar að þjóðlendum og einnig var dæmi um að landskiki sem var fjarri sjó yrði þjóðlenda,“ segir í fréttinni sem er bara eitt lítið dæmi um fáránleikann.
Vestmannaeyjabær greip til varna og kostnaður sveitarfélagsins hlýtur að skipta milljónum. Fráfarandi ríkisstjórn vildi sölsa Vestmannaeyjar undir sig. Verður áhugavert að sjá viðhorf nýrrar ríkisstjórnar til málsins. Þar verða Eyjamenn að undirbúa sig undir það versta.
Sjá nánar í Morgunblaðinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst