„Ég hef spilað á öllum Eyjatónleikunum í Hörpu, allt frá minningartónleikum um Oddgeir í nóvember 2011 og svo í kjölfarið á öllum janúartónleikunum,“ segir Eyjamaðurinn Eiður Arnarsson bassaleikari á Eyjatónleikunum.
„Held raunar að flestir í hljómsveitinni hafi komið fram á sem næst öllum tónleikunum og mögulega hefur hann Kjartan Valdemarsson vinur minn spilað á þeim öllum eins og ég. Siggi Flosa kannski líka, er ekki alveg viss. Jónsi gítarleikari, Biggi Nielsen trommari og söngvararnir Kristján Gísla og Alma Rut hafa öll staðið vaktina ansi lengi. Og Þórir hljómsveitarstjóri sömuleiðis.“
Þrátt fyrir að nú séu fjórtándu Eyjatónleikarnir handan hornsins segir Eiður að þetta sé alltaf jafn gaman. „Það er alltaf sama tilhlökkunin. Tónleikarnir eru orðnir fastur liður í dagatalinu í janúar og alltaf jafn gaman. Það er reyndar bara alltaf gaman að spila en alveg sérstaklega í Eldborg.
En stemningin á Eyjatónleikunum er mjög sérstök. Gestir á mjög breiðum aldri, fjölbreytt músík og hálfgerð árshátíð í hléinu. Skilaboð mín til þeirra sem aldrei hafa komið á Eyjatónleika eru; það er aldrei of seint að byrja,“ segir Eiður að endingu.
Myndir úr safni Óskars Péturs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst