Bæjarráð fjallaði á fundi sínum á miðvikudag um drög að samningi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Vestmannaeyjabæjar og Þekkingarseturs Vestmannaeyja um rekstur stafrænnar smiðju í Vestmannaeyjum. Starfsemi stafrænnar smiðju var rekin af Nýsköpunarmiðstöð Íslands í aðstöðu Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum þar til um síðustu áramót. Frumvarp liggur fyrir á Alþingi um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð.
Starfsemi stafrænnar smiðju er ætlað að efla nýsköpun- og frumkvöðlastarfsemi á þeim svæðum sem þau eru starfrækt. Sérstök áhersla verður á að hvetja ungt fólk til nýsköpunar, en jafnframt aðra áhugasama einstaklinga. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið munu leggja verkefninu til fjármagn til rekstursins og Vestmannaeyjabær mun leggja til húsnæði og fjármagn til reksturs þess. Starfsemi stafrænnar smiðju verður hluti af Þekkingarsetri Vestmannaeyja.
Bæjarráð ræddi drög að samningi um rekstur stafrænnar smiðju. Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir með þeim athugasemdum sem fram komu á fundinum og í framhaldinu að undirrita samninginn fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst