Bjartey Hermannsdóttir hafði samband við ritstjórn Frétta og sagði farir sínar ekki sléttar. Sagði hún að einhver óprúttinn, einn eða fleiri, hefðu gert sér það að leik að klippa fax hesta hennar í vikunni. „Hestarnir okkar voru, ásamt hestum annarra, í gerði við Norðurgarð en yfirleitt eru þeir við Helgafell þar sem við erum með hesthús. Þegar við komum að þeim var búið að klippa mjög mikið úr faxi og eins toppi hestsins,“ sagði Bjartey.