Á síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja var tekist á um gerð minnisvarða eða listaverks sem til stendur að setja við og upp á Eldfell. Þar var talsvert bókað um málið og ljóst að ekki eru allir á einu máli um málið. Minnihlutinn lagði til að vísa málinu til íbúakosningar/könnunar.
Í bókun frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins segir „Áfram höldum við að slá varnagla vegna málsins. Heildarkostnaður né nákvæm útfærsla virðist enn ekki liggja fyrir þrátt fyrir margra mánaða vinnu, í það minnsta hefur slíkt ekki verið kynnt bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Megn óánægja er með þessa ákvörðun meðal bæjarbúa, það er staðfest bæði í skoðanakönnun sem framkvæmd var af Maskínu og undirskriftarlista þar sem fleiri hundruð rituðu undir. Ef meirihlutinn er svo sannfærður um ágæti verksins þá ætti hann ekki að óttast það að leyfa bæjarbúum að segja sína skoðun í íbúakosningu. Við treystum bæjarbúum.”
Í kjölfarið var borin upp tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem sagði: Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að þegar í stað verði haldin íbúakönnun um verkefnið.
Í bókun bæjarfulltrúa E og H lista segir að það sé með talsverðum ólíkindum að það skuli vera þörf á því, enn og aftur, að leiðrétta rangfærslur í opinberri umræðu um það mál sem hér er á dagskrá. Æ ofan í æ er það fullyrt, jafnvel af bæjarfulltrúa sem á að vita betur, að til standi að gera stórfelldar og óafturkræfar breytingar á ásýnd Eldfells. Þessu er haldið fram þrátt fyrir að í á annað ár hafi gögnin frá listamanninum og landslagsarkitektastofunni Landslagi legið fyrir – og þar er þvert á móti gert ráð fyrir að allt sem gert verður á Eldfelli verði afturkræft.
’’Removable without leaving traces’’ eins og það heitir – eða afturkræft án þess að skilja eftir ummerki.
Þrásinnis er líka gefið til kynna að eitthvað sé óljóst, eða jafnvel falið, um kostnað Vestmannaeyjabæjar af þessu verkefni. Þar hefur ekkert breyst, og þaðan af síður verið falið, það sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða haustið 2022 – að verja 50 milljónum króna í þetta verkefni.
Meirihlutinn hefur aftur á móti fullan skilning á einlægum áhuga fólks á að fá kynningu á þessu listaverki og margumræddum göngustíg sem er hluti af því. Við höfum líka skilning á því að drátturinn sem hefur orðið á þeirri kynningu hafi sáð einhverskonar tortryggni eða óróa. En jafnframt hljóta allir að hafa skilning á því að tímasetning slíkrar kynningar hlýtur að ráðast af því hvenær listamaðurinn sjálfur telur verkið fullbúið til almennrar kynningar.
Það er gleðiefni að sú stund er að renna upp. Listamaðurinn, Ólafur Elíasson, hefur ákveðið að koma sjálfur til Vestmannaeyja og kynna verkið fyrir samfélaginu hér – með göngustíg og öllu saman. Gert er ráð fyrir að þessi kynningarfundur verði núna seinni hlutann í febrúar, segir í bókun meirihlutans.
Tillaga bæjarfulltrúa D lista um íbúakönnun var felld með fimm atkvæðum bæjarfulltrúa E og H lista gegn fjórum atkvæðum bæjarfulltrúa D lista.
Íris Róbertsdóttir gerði greini fyrir atkvæði fulltrúa E og H lista: Ákvörðun var tekin um málið árið 2022 og því tímapunktur til þess að halda íbúakosningu eða íbúakönnun ekki í dag heldur var hann árið 2022. Ákvörðunin hefur þegar verið tekin og því ekki hægt að kjósa um hana. Þegar er búið að ganga frá samningum við listamanninn og íslenska ríkið.
Margrét Rós Ingólfsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu: Ég styð það að þetta mál hefði farið í íbúakosningu. Það er sjaldan sem svona mikil umræða hefur verið um svona yfirgripsmikið verkefni, svona andstaða við verkefnið, sjaldan sem það er. Fjölmargir hafa lýst yfir þeirri skoðun, eins og ég sagði áðan, bæði í könnun sem Maskína gerði og eins í undirskriftarsöfnun meðal íbúa.
Páll Magnússon gerði grein fyrir atkvæði sínu: Það er heldur seint að efna til íbúakönnunar um mál sem tekin var ákvörðun um með öllum greiddum atkvæðum fyrir þremur árum. Ákvörðun sem þegar er komin til framkvæmda að stórum hluta.
Liðurinn var samþykktur með fimm atkvæðum bæjarfulltrúa E og H lista gegn fjórum atkvæðum bæjarfulltrúa D lista.
Margrét Rós Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálstæðisflokksins hefur tjáð sig reglulega opinberlega um þetta mál. Eyjafréttir spurðu hana nánar um málið.
Nú lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram tillögu um að setja málið í íbúakönnun. Er ekki rétt að nú þegar er búið að fastsetja tugi milljóna til verksins og því að verða of seint að bakka út úr þessu máli?
Miðað við samninginn sem gerður var við stúdíó listamannsins er ljóst að það er búið að fastsetja tugi milljóna í þetta verk. Þá er eflaust búið að setja einhverjar milljónir í skipulagsvinnu. Það eru hins vegar miklir fjármunir sem enn á eftir að setja í þetta, það hleypur líklegast á hundruðum milljóna. Út úr því er hægt að bakka.
Við höfum áður lagt til að málið verði sett í hendur bæjarbúa og því hefur verið synjað. Nú liggur fyrir undirskriftarlisti með hundruðum nafna þar sem mótmælt er, auk þess sem skoðanakönnun sem Maskína framkvæmdi sýndi fram á að óánægju með að farið sé í verkið. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja gefa íbúum tækifæri til þess að koma að þessu máli með íbúakönnun.
Nú fullyrðir meirihlutinn að gögn frá listamanninum og landslagsarkitektastofunni Landslagi sýni að gert sé ráð fyrir að allt sem gert verði á Eldfelli verði afturkræft. ’’Removable without leaving traces’’ eins og það heitir – eða afturkræft án þess að skilja eftir ummerki. Telja fulltrúar minnihlutans að þetta sé ekki rétt?
Já, að okkar mati gefur það augaleið að göngustígur, mögulega með handriðum, hvíldarpöllum og lýsingu mun alltaf skilja eftir ummerki sé það fjarlægt.
Hafið þið gögn frá öðrum sem sýna fram á annað?
Já, t.d. umsögn Náttúrufræðistofnunar, sem segir að miðað við gögn verði um að ræða heilmikið „mannvirki“ á fjallinu.
Varstu ósátt við fundarstjórn forseta í þessum málum?
Já, vægast sagt. Ég átta mig á að við forseti erum ekki sammála í þessum málum en ég upplifði þarna að forseti bæjarstjórnar væri ekki forseti allra bæjarfulltrúa. Bæjarfulltrúi sem flytur tillögu eða framsögu má tala oftar en tvisvar við hverja umræðu máls, það er skýrt í bæjarmálasamþykkt, segir Margrét Rós.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst